Jafnréttisstefna

Eineltisstefna

Umhverfisstefna

Persónuverndarstefna

Fræðsla og forvarnir

Siðareglur

Fræðsla og forvarnir

Félagið leggur mikla áherslu á að veita yngri kynslóðinni fræðslu og uppeldi þegar kemur að forvörnum. Þeir iðkendur félagsins sem eru skráðir í akademíuna við FSu, skrifa undir samning þar sem þeir skuldbinda sig til þess að neyta ekki áfengis eða annara vímu- eða fíkniefna. Augljóst er að sú skuldbinding er þessum iðkendum mikilvæg til þess að ná auknum árangri í íþróttinni, en að sama skapi eru þeir fyrirmyndir fyrir yngri leikmenn félagsins. Með þessu hefur ákveðin hefð skapast, til langs tíma litið, sem gerir unga leikmenn Selfoss-Körfu ennþá móttæki­­legri fyrir forvarnastarfi og hjálpar þeim að standast óæskilegar freistingar sem á vegi þeirra verða á táningsaldri.

Mikilvægt er að fá foreldra með í fræðslustarfið og vinna það í sameiningu. Félagið vinnur eftir stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni. Leikmenn meistaraflokks skuldbinda sig til þess að neyta hvorki áfengis né annarra vímuefna í tengslum við viðburði á vegum félagsins. Sérstaklega skal tekið fram að neysla munntóbaks og nikótínpúða í tengslum við leiki, æfingar eða aðra viðburði er með öllu bönnuð.

Forvarnateymi

Innan félagsins er starfandi forvarnateymi. Það er skipað formanni Barna- og unglæingaráðs, yfirþjálfara yngri flokka og einum fulltrúa úr stjórn félagsins. Forvarnateymi tekur til skoðunar öll mál er varða einelti, kynferðislegt ofbeldi/áreiti, vímuefnanotkun, kynþáttaníð og annað ofbeldi/áreitni er upp kann að koma innan félagsins.

Vímuefnavarnarstefna

Neysla á tóbaki og vímuefnum
Félagið er andvígt allri vímuefnaneyslu meðal iðkenda og annara félagsmanna sem að íþróttastarfi á vegum félagsins koma. Öll neysla tóbaks og vímuefna er bönnuð í tengslum við æfingar og keppni á vegum félagsins.

Viðbrögð félagsins við neyslu iðkenda
Félagið mun bregðast sérstaklega við allri neyslu tóbaks og vímuefna iðkenda undir 18 ára aldri og mun forvarnateymi upplýsa foreldra um slíka neyslu. Þegar um sjálfráða einstaklinga er að ræða bregst félagið við neyslu þeirra á vímuefnum og tóbaki þegar það hefur áhrif á ástundun, frammistöðu og ímynd félagsins. Viðbrögð félagsins við brotum á reglum þessum eru í formi tilmæla og ábendinga. Skili viðbrögð ekki árangri getur komið til banns frá æfingum og/eða keppni. Viðbrögð félagsins mótast af vilja til að aðstoða iðkandann við að laga sig að reglum og að hann haldi áfram að starfa innan félagsins.

Þjálfarar
Þjálfarar vinna eftir vímuvarnarstefnu félagsins, þar með talið að bregðast við vímuefnaneyslu iðkenda á viðeigandi hátt. Félagið sér þjálfurum fyrir fræðslu um áhrif vímuefnaneyslu á árangur í íþróttum sem þjálfarar miðla áfram til iðkenda. Þjálfarar framfylgja stefnu félagsins varðandi samstarf við foreldra og aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga.

Samstarf við foreldra
Félagið upplýsir foreldra um stefnu félagsins í vímuvörnum. Félagið mun standa að góðu samstarfi við foreldra iðkenda með fræðslu um neikvæð áhrif tóbaks og annara vímuefna á árangur í íþróttum, auk fræðslu til foreldra um þjálfun og æskilegt mataræði.

Samstarf við aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga
Félagið mun hafa náið samstarf við aðila sem sinna tómstundastarfi barna og unglinga. Félagið mun hafa samstarf við fagaðila sem sinna börnum og unglingum, fá frá þeim fræðsluefni og hafa samráð við einstaklinga í áhættuhópum.

Virðing, samskipti og vinátta

Körfuknattleiksfélag Selfoss leggur mikla áherslu á vináttu, góð samskipti og gagnkvæma virðingu inná vellinum sem og utan. Einelti er ekki liðið. Iðkendum á að finnast íþróttaiðkun skemmtileg og finna fyrir vellíðan. Mikilvægt er að þjálfarar hvetji iðkendur með jákvæðum og uppbyggjandi hætti og að iðkendur temji sér að hrósa hvor öðrum þegar vel er gert.          Nauðsynlegt er að byggja upp jákvæðan félagsanda, stuðla að vináttu og efla liðsanda og á sama tíma að iðkendur hafi gaman af líðandi stundu. Gagnkvæm virðing er mikilvæg í öllum samskiptum innan félagsins, hvort sem um er að ræða samskipti milli eða innan stjórnar, þjálfara, iðkenda, foreldra/forráðamanna iðkenda, styrktaraðila eða annarra samstarfsaðila.

Eineltisstefna Selfoss-Körfu

Einelti er síendurtekið ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast síendurtekið á einhvern einstakling. Ofbeldið getur verið félagslegt, líkamlegt, andlegt eða efnislegt.

  • Félagslegt: einstaklingur er skilinn útundan, er strítt, lítið gert úr honum eða gerðar særandi athugasemdir í formi svipbrigða, andvarpa, eftirherma og þess háttar.
  • Líkamlegt: einstaklingur er umkringdur, sparkað í hann, hann hárreittur, klipinn og þess háttar. Einstaklingur er lokaður inni eða honum haldið föstum.
  • Andlegt: einstaklingur er þvingaður í eitthvað sem stríðir gegn hans réttlætiskennd, sem dæmi má nefna að girða niður um hann eða að hann er þvingaður til að eyðileggja eigur annara. Einstaklingur fær neikvæð skilaboð (SMS, Snapchat, vefpóst og þess háttar) og hótanir.
  • Efnislegt: eigur einstaklings (til dæmis íþróttaföt, taska, skór, búnaður eða föt) eru ítrekað eyðilögð, falin eða tekin.

Ferli eineltismála

  1. Grunur um einelti
  2. Einelti er tilkynnt til forvarnarteymis félagsins sem metur alvarleika málsins og vísar því ef ástæða þykir áfram tilviðbragðshóps vegna eineltismála/fagaðila á vegum Sveitar­félagsins Árborgar.
  3. Viðbragðshópur sýnir viðbrögð
    1. Rannsókn á málinu hefst
      • Rætt við þolanda um hans upplifun og lýsingu á atvikum og það skráð niður. Kannað hvort möguleg vitni séu til staðar að mati þolanda
      • Ræða við meintan geranda um hans upplifun og lýsingu á atvikum og það skráð niður. Kanna hvort möguleg vitni séu til staðar að mati geranda
      • Ræða við meint „vitni“ um upplifun, lýsingar á atvikum og hverjir hafa verið viðstaddir atvikin og það skráð niður.
    2. Mat á niðurstöðum
      • Farið yfir þær upplýsingar sem liggja fyrir
      • Metið hvort atvikið teljist sem einelti samkvæmt skilgreiningu eineltis (sjá ofar)
      • Við þetta mat er nauðsynlegt að njóta aðstoðar fagaðila
    3. Farið í aðgerðir
      • Ef atvikt telst ekki vera formlegt einelti eða ef atvik telst ekki nægjanlega vel upplýst er mikilvægt að greiða úr samskiptum og gefa skilaboð um samskipti innan félagsins.
      • Ef atvik telst vera formlegt einelti þarf að meta afleiðingar geranda
      • Brottrekstur úr félaginu
        • Fái gerandi einungis tiltal og verði áfram hjá félaginu þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir endurtekið einelti.
        • Styðja þarf við þolanda eineltis

Þjálfarar skulu gæta þess sérstaklega að tryggja aga og reyna eftir bestu getu að koma í veg fyrir einelti. Í því skyni skal þjálfari eða staðgengill hans vera mættur tímanlega á æfingar og fylgja sínum hópi til búningsklefa og vera til staðar meðan iðkendur hafa fataskipti ef því verður við komið.

Þjálfarar reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir alla þá þætti sem geta dregið úr vináttu, virðingu og góðum samskiptum. Þjálfarar hafa samráð við yfirþjálfara telji þeir ástæðu til að bregðast við aðstæðum iðkenda sem draga úr vináttu, virðingu og góðum samskiptum og þjálfari er að sama skapi hvattur til að ræða slík mál við iðkendur sína ásamt yfirþjálfara. Þjálfari og yfirþjálfari eru hvattir til að bregðast við atvikum sem þeir telja alvarleg með því að koma sér í samband við foreldra/forráðamenn iðkenda.

Ef foreldrar/forráðamenn verða varir við einelti eða óviðeigandi hegðun utan æfinga sem gæti haft áhrif á eða teygt anga sína inn á þær eru þeir hvattir til að láta þjálfara vita til að koma í veg fyrir að atvikin komi upp á æfingum og þeir séu í stakk búnir að takast á við einelti ef það kemur upp.

Sé eineltismál af þeirri erfiðleikagráðu að það fæst ekki leyst innan félagsins skal leita til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs hjá ÍSÍ.

Kynferðislegt ofbeldi

Félagið vill með öllum ráðum koma í veg fyrir að kynferðislegt ofbeldi geti átt sér stað innan félagsins eða í tengslum við starfsemi þess. Fræðslumálum verður haga með þetta í huga og því verður starfsfólk frætt um hugsanleg merki um kynferðislegt ofbeldi ásamt því að fræða það um hvernig hægt sé að komast hjá því að slíkt ofbeldi muni eiga sér stað og eins hvernig bregðast eigi við ef slíkt mál kemur upp. Ef grunur um kynferðislegt ofbeldi vaknar hjá félaginu tekur forvarnateymi félagsins málið til skoðunar og, ef nauðsyn krefur, leitar til samskipta­ráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs hjá ÍSÍ og viðeigandi fagaðila hjá Sveitarfélaginu Árborg og málið sett í ferli á sama hátt og eineltismál.

Sjá einnig góð ráð og leiðbeiningar í bækling frá ÍSÍ um kynferðislegt ofbeldi í íþróttum:

https://issuu.com/ithrotta-ogolympiusambandislands/docs/kynfer_islegt_ofbeldi_____r_ttum

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur
Ræktó
Ræktó
Ræktó