Selfoss hefur samið við Bandaríkjamanninn Christian Cunningham um að leika með liðinu á komand tímabili. Christian er 22 ára, ríflega tveggja metra miðherji sem kemur frá NCAA 1. deildarliði Jacksonville State. Þar lék hann í fjögur ár undir leiðsögn Ray Harper, eins besta þjálfarans í bandaríska háskólaboltanum.
Christian er afbragðs íþróttamaður og orkumikill leikmaður sem eltir öll fráköst jafnt í vörn sem sókn. Hann getur varist leikmönnum í mörgum stöðum á vellinum, er með mjúkan úlnlið og laginn að klára færin sín við körfuhringinn, þ.e. þegar hann treður ekki með tilþrifum yfir mann og annan.
Félagið er spennt að sjá hvað leikmaðurinn hefur fram að færa, ekki síst með tilliti til þess að hann kemur úr skóla með úrvals þjálfara og körfuboltaprógramm. Hann er eini leikmaðurinn í sögu skólans sem náð hefur að skora 900 stig, taka 800 fráköst og verja 200 skot á ferli sínum þar, og á skólametið í vörðum skotum, 215 alls.
Christian lauk háskólaferli sínum hjá Jacksonville State á 24/9 sigurhlutfalli, en lokapunkturinn var naumt 2 stiga tap fyrir Murray State liðinu.
Myndbrot af leikmanninum má nálgast hér.
Velkominn á Selfoss, Christian Cunningham!