Nú styttist í fyrstu leiki í 1. deild karla og því ekki úr vegi að velta vöngum um stöðu liðanna og möguleikum þeirra út frá helstu breytingum frá síðasta tímabili.

Rétt í þessu bárust þær leiðinlegu fréttir að Snæfell hafi ákveðið að leggja niður lið í meistaraflokki karla. Fyrst verður að taka fram að slíka ákvörðun tekur enginn að gamni sínu, það getur nefnilega verið þrautin þyngri að byrja alveg upp á nýtt og því reyna allir í lengstu lög að halda lífi í sinni starfsemi. Um það eru fleiri dæmi en af Snæfelli að eftir mikla blómatíma hafi fallið verið hátt, og langtímaverkefni að komast á lappirnar aftur. Það sorglega við þetta er að línan er þunn milli feigs og ófeigs og fleiri félög en Snæfell ramba á brúninni fjárhagslega. Þó nauðsynlegt sé að sníða sér stakk eftir vexti þá krefst það staðfestu og þolinmæði; allir vilja „vera í þessu“ til að vera samkeppnishæfir og vinna leiki. Galdurinn er auðvitað að setja sér raunhæf markmið og fagna því ef þau nást, jafnvel þó utan frá séð sé árangurinn ekki talinn í frásögur færandi eða merkilegur, enda nánast eingöngu einblínt á sigra, töp og titla í fjölmiðlun, en minni spenningur fyrir innra starfi, vexti, uppeldi og bætingum.

Á dögunum var birt „hin opinbera“ spá um gengi liðanna, annars vegar frá þjálfurum, fyrirliðum og formönnum liðanna og hinsvegar frá fjölmiðlum. Það var góður samhljómur frá báðum hliðum hvað varðar efstu og neðstu sætin, þrjú efstu og tvö neðstu, og um að hafa Fjölni í 5. sæti:

1 Breiðablik 339              (1.-1.)

2 Hamar 331                     (2.-2.)

3 Álftanes 256                  (3.-3.)

4 Vestri 219                       (4.-7.)

5 Fjölnir 205                      (5.-5.)

6 Skallagrímur 184          (7.-4.)

7 Selfoss 143                    (8.-6.)

8 Sindri 125                       (6.-8.)

9 Hrunamenn 125           (9.-9.)

10 Snæfell 61                   (10.-10.)

Þetta getur verið eins góð spá og hver önnur en ef tekið er tillit til allra þeirra breytinga sem orðið hafa á leikmannahópum liðanna, út frá því sem birt hefur verið á Netinu, þá vex óvissan óneitanlega mikið.

Mestur stöðugleiki virðist vera hjá Breiðabliki. Í grófum dráttum er það með sama hópinn; Hilmar fer en Kristinn Marinós. kemur í staðinn og Larry Thomas fer en Samuel Prescott kemur í staðinn. Þessir leikmenn eru allir þekktar stærðir en að mati undirritaðs veikja breytingarnar liðið eitthvað, ferkar en hitt. Larry Thomas hefur verið afburðagóður undanfarin ár hjá Þór Ak. og Breiðabliki en Prescott virkaði ekki mjög áhugasamur í fyrra hjá Álftnesingum og Hilmar var sömuleiðis frábær hjá Blikum í fyrra og spurning hvort Kristinn verður jafn ógnandi sóknarlega?

Hamar er með mikið breytt lið, sem helgast fyrst og fremst af því að hann skiptir út erlendu vinnuafli; komnir eru 3 nýir atvinnumenn sem á eftir að koma í ljós hvernig reynast – og Everege er farinn, leiðtoginn og langbesti maður liðsins – sem er stór biti að kyngja. Þá er Bjarni Rúnar, annað hjartað og sálin í liðinu, hættur en á móti kemur að hitt hjartað og hin sálin, Oddur Ólafs. er kominn til baka. Þá hefur Hamar styrkt hópinn með nokkrum ungum strákum og ef Maciek verður bæði meiðslalaus og með hausinn rétt skrúfaðan á mun hann bæta við sóknarþungann.

Álftanes er það lið sem hefur fengið mest í skóinn, og engar kartöflur. Tveir kanar, Róbert, Trausti Eiríks. og Kristján Pétur eru engin smá sending, þó aðrir séu hér ekki nefndir á nafn. Breiðablik og Hamar verða að sanna það á vellinum að geta unnið þetta lið. Segi ekki meira.

Vestra er spá 4. sæti. Hann hefur bætt við sig kana, og Adersteg frá Snæfelli. Þó hann hafi staðið sig mjög vel í Hólminum þá kemur hann ekki í staðinn fyrir kjölfestuna undanfarin mörg ár; sjálfan Nebo sem farinn er í Borgarnes. Þegar í hópi brotthorfinna eru líka tvíburarnir og Ingimar Aron, þá er erfitt að sjá á hvaða forsendum Vestra er spáð 4. sætinu.

Fjölnir hefur misst mikið. Róbert og Vilhjálmur Theodór voru kjölfestan í liðinu og báðir farnir. Fjölnir hefur ráðið tvo erlenda atvinnumenn en treystir að öðru leyti á unga og spennandi, heimaalda stráka. Félagið hefur greinilega tekið þann pólinn í hæðina að byggja upp framtíðarlið í staðinn fyrir að setja allt kapp á efstu sætin með innkaupum. Það er því ekki á vísan að róa hvað stöðugleikann varðar og liðið gæti endað neðar í töflunni.

Skallagrímur er það lið, ásamt Breiðabliki, sem gerir hvað fæstar breytingar á hópnum, að því er séð verður. Hér verður þó að hafa í huga að magn er ekki sama og gæði. Skallarnir verða engin lömb að leika sér við með Nebo innanborðs og ef þeir hafa haft heppnina með sér hvað varðar bandaríska leikmanninn, þá verður ekkert grín að vinna þá og liðið gæti hæglega endað ofan við bæði Vestra og Fjölni.

Sindra er spáð 8. sætinu, fær jafnmörg heildarstig í spánni og Hrunamenn, 125. Sindri teflir fram nánast nýju liði, hefur ráðið 5 nýja, erlenda atvinnumenn, og jafn margir eða fleiri hafa horfið á braut. Þar er helst til tíðinda Gerald Robinson, sem hefur verið mjög öflugur í Dominosdeildinni undanfarin ár með ÍR og Haukum. Hann á eftir að reynast Hornfirðingum betri en enginn og ef í kringum hann næst að hrista góða blöndu verður Sindri í góðum málum. Á Hornafjörð er líka kominn nýr og spennandi spænskur þjálfari þannig að þar gæti ýmislegt gerst. Spyrjum að leikslokum með það.

Hrunamenn eru settir í næst neðsta sætið. Á hvaða forsendum það er gert er óljóst. Sennilega af því að þeir eru nýliðar og hafa enn takmarkaða reynslu ofar en í 2. deild. Árni Þór á þó eftir að troða blautri upp í spekingana, ef undirrituðum skjöplast ekki því meir. Hann hefur af mikilli skynsemi sett saman gott lið, fengið til sín 3 erlenda atvinnumenn í lykilstöður. Í fyrsta lagi Jasmin Perkovic, gamalreyndan, hávaxinn miðherja sem gerði það gott í fyrra með Tindastóli í Dominosdeildinni, þar sem hann skoraði 9 stig, tók 7 fráköst og skilaði 12 framlagspunktum á 25 mínútum. Þessi reyndi og góði leikmaður mun binda saman þetta lið þegar mest á reynir. Þá er í bakvarðastöðunum bandarískur strákur, mikill skorari sem hefur komið vel út í æfingaleikjum, og sá þriðji er framherji. Með þrjá góða leikmenn á þessum helstu póstum geta hinir ungu og reynsluminni heimastrákar notið sín pressulitlir. Þá eru nýir í hópnum Magnús Breki úr Þorlákshöfn og Ísak Siguðar. frá Hamri sem hafa báðir töluverða reynslu úr 1. deildinni – og þegar við upptalninguna bætast heimamenn með hjartað á réttum stað og sjálfur„neðrideildakóngurinn“ þá er næsta víst að Hrunamenn munu ekki skrapa botninn þegar upp verður staðið. Það er bara spurning hversu hátt þeir fara.

Selfossliðinu er spáð 7. sæti. Auðvitað vonumst við eftir því að enda ofar, en liðinu gæti þess vegna beðið annað hlutskipti. Félagið hefur markað þá stefnu að byggja á ungum leikmönnum og gefa þeim tækifæri til að láta ljós sitt skína. Kjarninn í leikmannahópnum er unglingaflokksstrákar, flestir 17-19 ára, og með einum bandarískum atvinnumanni getur brugðið til beggja vona.

Þetta er nánast alveg nýtt lið frá því í fyrra og því ekki á neinum gömlum grunni að byggja; nú í þessum skrifuðu orðum er verið að grafa fyrir sökklinum. Við sjáum á eftir Christian Cunningham, sem var frábær í fyrravetur, en fáum í staðinn annan Bandaríkjamann Darryl Palmer, í svipað hlutverk, stöður 4 og 5. Hann kom seint, lenti strax í hnjaski og því er ekki enn, fjórum dögum fyrir mót, komin reynsla á það hvernig hann smellur inn í liðið og hvað hann tekur mikið til sín. Vonandi verður hann orðinn 100% fyrir lok október.

Mikið mun mæða á Kristijan Vladovic, sem verður áfram okkar aðalleikstjórnandi, orðinn 21 árs „gamalmenni“. Ragnar Magni kemur til baka úr meiðslum og verður, ásamt Svavari Inga, Bjarka, Sigmari Jóhanni og nýliðanum Sverri Tý úr Grindavík, meðal hinna „gömlu reynslubolta“, og Arnór Bjarki, sem fékk eldskírnina í fyrra, verður hvorki meira né minna en 19 ára í nóvember og því fær í flestan sjó!

Þrír 17-18 ára íslenskir strákar hafa gengið í raðir Selfoss frá því í fyrra, Bragi frá Grindavík og þeir Sveinn Búi og Gunnar Steinþórs. úr Vesturbæ Reykjavíkur. Þetta eru allt stórefnilegir strákar sem fá, sem sagt, tækifæri til að sýna úr hverju þeir eru gerðir, munu þurfa að axla mikla ábyrgð og fá engin færi á því að skýla sér bak við atvinnumenn, þegar sá dagurinn kemur að slíkt væri þægilegt. Á sama báti verða Owen, Aljaz, Gregory og Finley, 18 og 19 ára gamlir Evrópumenn sem leggja mikið á sig og fjölskyldur sínar fjárhagslega til að spila körfubolta á Selfossi.

Selfossliðið er því óskrifað blað og verður gaman að sjá hvernig það þróast í vetur, og hvort leikmenn ná að hefja sig upp og gera sig gildandi í deildinni. Ef þeim tekst það er markmiðum vetrarins náð og hægt að fagna vel og innilega, burt séð frá töfluröðinni í vor.

Fyrsti leikur Selfoss er útileikur á Flúðum gegn Hrunamönnum, næstkomandi föstudagskvöld, 2. október kl. 19:15. Það er fagnaðarefni að fá annan „nágrannaslag“ í deildina, og næsta víst að Hreppamenn munu leggja allt í sölurnar að leggja Flóamennina að velli.

Um leið og spenningurinn vex, eftir langt keppnishlé, vonum við bara að Covid setji ekki of mörg strik í reikninginn á komandi tímabili!