Selfossliðið mætti Hamri í Hveragerði í gærkvöldi í 7. umferð 1. deildar karla. Eftir að hafa leitt allan leikinn missti liðið tökin í lokin og Hamar skreið fram úr, og vann með 4 stigum 82-78.

Selfoss komst yfir 5-6 og hélt forystunni næstu 30 mínútur, þar til Hamar jafnaði 64-64 snemma í 4. leikhluta. Þegar 4 mín. lifðu leiks var Selfoss enn yfir, 71-72, en Hamar skoraði þá 9 gegn engu og tryggði sigurinn í raun á þessum kafla, staðan 80-72 og lítið eftir. Þó Selfoss gerði heiðarlega atlögu með 6 stigum í röð og nógan tíma eftir á klukkunni til að vinna upp tveggja stiga mun í stöðunni 80-78, þá var lukkan ekki á þeirra bandi og besti leikmaður Hamars tryggði þeim sigurinn með tveimur vítaskotum þegar fáar sekúndur voru eftir.

Jose Medina var allt í öllu hjá Hamri, eins og ævinlega. Hann skoraði 28 stig, tók 7 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og fiskaði 9 villur, 29 framlagsstig. Leikur Hamars var ekki flókinn, sérstaklega í seinni hálfleik, Raggi Nat. setti boltahindrun fyrir Medina á toppnum og rúllaði svo að körfunni. Ef Medina fékk ekki  þriggjastigaskotið úr hindruninni var Raggi einn og yfirgefinn í gjörvöllum vítateig Selfyssinga og átti náðugan dag við að troða boltanum afskiptalaust í körfuna. Þetta var undarlegt á að horfa, því enginn annar leikmaður Hamars hafði uppi þá tilburði að skjóta boltanum ofan í körfuna og ástæðulaust að yfirdekka þá utan teigs meðan þessu fór fram í hjarta varnarinnar. Aðrir leikmenn en Medina skutu 4/24 af þriggjastigafæri í leiknum (Björn Ásgeir átti 3 af þeim 4 heppnuðu þristum), og hefðu þess vegna gjarnan mátt skjóta meira, ef Raggi hefði í staðinn fengið smá athygli í kringum körfuna. Raggi þakkaði fyrir góða þjónustu með 24 stigum og úrvalsnýtingu, og 18 fráköstum til að kóróna 42 framlagspunkta. Þetta er erfitt tvíeyki við að eiga. Björn Ásgeir var líka góður, skoraði 19 stig á fjölbreyttan hátt og var grimmur í varnarleiknum, sem er hans aðal gæðastimpill.

Selfossliðið hefði mátt halda betur á spilunum undir lok leiks. Þá breyttist leikstíllinn og boltinn hætti að flæða jafn vel og hann hefði gert lengst af í leiknum, við tók of mikið drippl og einstaklingsframtak sem leiddi til erfiðra og slæmra skota. Liðinu hafði gengið ágætlega í 35 mínútur að leika þokkalegan liðsbolta í sókninni, skapa sér þannig galopin skot nánast að vild, og allir þokkalega virkir. En svona fer stundum þegar menn ætla „að bjarga málunum“ á eigin spýtur. Oftar en ekki fer það í handaskolum, þó „hetjubolti“ heppnist einstöku sinnum.

Selfoss spilaði á einungis 6 leikmönnum, 5 af þeim um 30 mínútur og meira, Ísak og Gerald nánast allan leikinn. Kennedy var þeirra bestur. Þrátt fyrir að fá það orkufreka hlutverk að verjast besta sóknarmanni andstæðinganna nánast allan leikinn, var hann líka beinskeittastur í sóknarleiknum, skoraði 25 stig, tók 9 fráköst, nýtti 5/7 tveggjastigaskota og 5/8 þristum, og gaf liðinu 27 framlagsstig. Frábær leikur hjá honum. Arnaldur kom næstur með 16 framlagspunkta, 11 stig, 7 fráköst og 50% nýtingu. Gerald skilaði 15 framlagspunktum, koraði 16 stig og tók 6 fráköst. Srdjan var með 10 í framlag, skoraði 12 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst, en liðinu gekk hvað best með hann inná, +9, sem var hæsta +/- hlutfallið. Ísak skoraði 10 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Mikið mæddi á honum í leiknum, en hann fékk þó að hvíla sig í heilar 27 sekúndur, eftir höfuðhögg seint í leiknum. Birkir og Dusan stigu tánum rétt inn á parketið, en engin tækifæri til áhrifa.

Þrátt fyrir tæp 20 fráköst hjá Ragga Nat. munaði aðeins 5 fráköstum í heildina milli liðanna. Skotnýting Selfyssinga utan af velli var töluvert betri, en tapaðir boltar fleiri og vítanýtingin, maður lifandi, aðeins 40%. Eftir á að hyggja varð varnarleikurinn Selfossi að falli. Mikil áhersla var lögð á Medina, eins og eðillegt var, og ekki hægt að kvarta yfir framkvæmd leikmanna á varnarútfærslunni, hann bara hitti úr skotum með mann í andlitinu og fátt við því að gera. Hins vegar gleymdist með öllu langtímum saman hjálparvörn á landsliðsmiðherjann, sem er erfitt að átta sig á að sé hægt. Maður lætur ekki Ragga Nat. frílista sig einmana í vítateignum, heldur veitir honum þétta nærveru. Það er lágmarks tillitssemi við jafn góðan dreng, og það er meira en lítillar athygli vert að ekki var gerð ein einasta tilraun til að láta hann frekar hitta af vítalínunni en að troða boltanum ofan í körfuna.

Margan góðan lærdóm er hægt að draga af þessum leik en næsta verkefni Selfossliðsins er viðureign gegn Skallagrími í Borgarnesi fimmtudaginn 10. nóvember kl. 19:15.

ÁFRAM SELFOSS!!!