Ekki náði Selfossliðið að halda hreinum heimavelli sínum lengur en fjóra fyrstu leikina. Í gær hófst önnur umferð 1. deildar karla með leik Selfoss gegn Fjölni, hér heima í Gjánni, og eftir ágætan fyrri hálfleik heimaliðsins og 8 stiga forystu, snerist taflið við í þeim seinni, gestirnir voru ákafari og unnu hann með 14 stigum, og þar með leikinn með 6 stiga mun, 75-81.
Þetta var jafn leikur mestallan tímann, og þó Selfoss leiddi lengi framan af, þá var Fjölnir alltaf innan seilingar. Eftir 25 mínútur jöfnuðu þeir 48-48 og höfðu yfirhöndina úr því til loka. Þegar 5 mín. voru eftir munaði bara 3 stigum, og Selfoss fékk ágæt færi á því að snúa leiknum sér í hag í stöðunni 75-77 á síðustu mínútunni en nýtti þau ekki og besti leikmaður Fjölnis, Petar Peric, skoraði síðustu 4 stigin í leiknum af vítalínunni og tryggði liði sínu sigurinn.
Það voru Peric (24 stig/6 frk./6 sts.), Rafn Kristján (16 stig/8 frk.) og Lewis Diankulu (14 stig/5 frk.) sem fóru fyrir Fjölnisliðinu en Brynjar Kári (10 stig) og Hilmir (7 stig/6 frk.) gerðu líka vel, og segja má að liðið hafi unnið þennan leik á ágengum varnarleik mestallan seinni hálfleikinn, varnarleik sem setti Selfyssinga svolítið út af laginu og gerði sóknaraðgerðir þeirra heldur hikandi á köflum.
Kennedy var bestur heimastráka og tölfræðilínan flott: 27 stig/6 frk./6 stolnir/6 fiskaðar villlur/53% nýting/31 í framlag. Gerald skilaði líka sínu að vanda, 23 stig og 13 fráköst og Birkir Hrafn Eyþórsson hélt upp á 16 ára afmælið sitt í gær með tveggja stafa tölu í framlag: 5 stig/6 frk./3 stoðs./10 frl., en þessir þrír þegarnefndu voru einu Selfyssingarnir sem náðu því takmarki. Ísak skoraði 8 stig og gaf 6 stoðsendingar, Arnaldur 5 og tók 4 fráköst, Styrmir 3 stig, Ísar 2 stig og Dusan 2 stig.
Segja má að það hafi vantað meira framlag, betri skotnýtingu, úr fleiri áttum að þessu sinni, en við sveiflum er að búast í ungu og óreyndu liði, stundum gengur flest vel og stundum ekki. Staðan er einfaldlega sú að til þess að vinna leiki þarf liðið allt að hitta á góðan dag, og líka að einhverjir geri betur en meðaltölin segja. Kröfu um stöðugt framlag er aðeins hægt að gera til reyndra leikmanna. Og menn verða það, reyndir og góðir leikmenn, með því að fara bæði fjallstoppa og djúpa dali. Og á því ferðalagi eru bæði þessi lið. Sem er skemmtilegt.
Óneitanlega hefði samt verið skemmtilegra að enda þennan leik með almennilegu afmælispartýi fyrir Birki, því það var lafhægt.
Tölfræðisamanburðurinn sýnir jafnræðið milli liðanna: Framlagið 82-84; tapaðir, stolnir, fráköst, villur, allt í jafnvægi. Skotnýting Fjölnis ívið betri, og þar réðust úrslitin.
Nú á Selfossliðið þrjá leiki eftir fyrir jólafrí. Næst útileik á Flúðum gegn Hrunamönnum nk. föstudag, 2. des., síðan gegn Álftanesi heima föstudaginn 9. des og að lokum leik gegn ÍA á Akranesi föstudaginn 16. des.
ÁFRAM SELFOSS!!!