Um helgina lagði sameiginlegt lið Selfoss, Þórs og Hrunamanna í 9. flokki stúlkna í langferð vestur á firði. Áfangastaðurinn var Bolungarvík, þar sem fyrsta fjölliðamót keppnistímabilsins fór fram.
Okkar stelpur gerðu góða ferð. Þær unnu heimastúlkur í Vestra örugglega, voru á pari við stöllur sínar í Haukum og töpuðu með aðeins 6 stigum og í seilingarfjarlægð frá liðum Grindavíkur og Fjölnis.
Það verður að geta þess hér að Suðurlandsliðið er blanda leikmanna frá þremur félögum og því er samæfingin ekki eins góð og ákjósanlegt væri. Stúlkurnar hafa t.d. aðeins náð einni sameiginlegri æfingu í haust en æfa að jafnaði hjá sínu félagi, hvert í sínu lagi. Þrátt fyrir þetta hefur skapast frábær andi í þessum hópi, stelpurnar ná mjög vel saman og eiga eftir að gera það gott á vellinum með meiri samæfingu, sjáið þið barfa til.
Úrslitin voru sem hér segir:
Selfoss/Þór/Hrunamenn – Vestri: 65-18
Selfoss/Þór/Hrunamenn – Haukar: 54-60
Selfoss/Þór/Hrunamenn – Fjölnir: 37-52
Selfoss/Þór/Hrunamenn – Grindavík: 27-44
Á meðfylgjandi mynd má sjá liðið okkar Sunnlendinga með þjálfara sínum, Mikel Ereño Martin.