Selfoss fór í Borgarnes á föstudaginn og mætti Skallagrími í 1. deild karla. Því miður skildi liðið tunnubotninn eftir heima og því lak ansi strítt og heimaliðið þurfti ekki neinn stórleik til að stjórna umferðinni allan tímann og vinna nokkuð öruggan sigur, þó munurinn hafi svo sem aldrei verið mikill og Selfossliðið hefði með betri einbeitingu auðveldlega getað snúið taflinu sér í hag hvenær sem var. Niðurstaðan varð 83-77 sigur heimamanna og vissulega nokkur vonbrigði að tapa tveimur leikjum í röð gegn liðum neðar í töflunni, eftir ljómandi góða byrjun á mótinu.
Skallagrímur leiddi sem sagt mestallan tímann en aðeins með litlum mun lengst af. Selfoss komst nokkurm sinnum 1 stigi yfir en skorti kraft og þor til að láta kné fylgja kviði og heimamenn náðu alltaf vopnum sínum aftur. Undir lok þriðja hluta og fram í þann fjórða varð munurinn mestur, nálægt 10 stigum en okkar menn náðu síðar nokkrum stoppum í röð og minnkuðu muninn í 1 stig þegar mínúta var eftir, 78-77. En Skallagrímur hélt velli og tryggði 6 stiga sigur af vítalínunni í lokin.
Skallagrímur er kominn með gerbreytt lið frá upphafi móts, nýjan leikmann frá USA og nýjan Bosman, sem mun hafa komið frá Sindra. Þessir tveir gerðu gæfumuninn, Battle með 29 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar og Kovac með 15 stig og 18 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst sem gáfu honum flest af stigunum. Í rauninni var þetta banabiti Selfossliðsins, að geta ekki varið teiginn betur og tapa frákastabaráttunni svona illa, eða 50-33, þar af 16-7 í sókn.
Hjá Selfossi var Trevon atkvæðamestur í stigaskori með 27 stig og splundraði oft vörn Borgnesinga með hraða sínum en skotnýtingin fyrir utan var döpur. Gasper var framlagshæstur leikmanna eins og oftast áður, 30 punktar, 20 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Vito setti 15 stig og nýtti 50% þriggjastigaskota, Óli Gunnar skoraði 6 og tók 7 fráköst, Arnar Geir 4 stig, Styrmir Jónasar 3 og Sigmar Jóhann 2.
Það voru vonbrigði að Gerald Robinson gæti ekki leikið með Selfossliðinu, eins og vonir höfðu staðið til. Liðið saknar hans gríðarlega, ekki síst í fráköstum, en ekki síður til að skapa meiri fjölbreytni í sóknarleiknum, því eins og staðan er vantar sárlega að geta leitað meira inn í teiginn.
En þetta stendur til bóta á næstunni. ÁFRAM SELFOSS!!!