Selfoss náði í fyrstu stigin í deildinni sl. laugardag þegar Snæfell kom í heimsókn í Gjána. Eftir jafnan fyrsta leikhluta stungu okkar menn af og unnu sannfærandi 45 stiga stórsigur, 96-51.
Snæfell var yfir eftir fyrsta hluta 17-18 en strax í öðrum fjórðung tók Selfoss völdin, og leiddi í hálfleik 43-35. Seinni hálfleikur var nánast einstefna á Snæfellskörfuna, 23-6 í þriðja og 30-10 í fjórða fjórðung.
Hjá Snæfelli var Deandre Mason öflugastur með 21 stig og 9 fráköst, Dominykas Zupkauskas skoraði 7 og tók 9 fráköst, Darrell Flake skoraði 8 stig og kornungir og efnilegir strákar Snæfellinga bættu við því sem upp á vantar.
Snjólfur Marel Stefánsson var mjög öflugur fyrir Selfossliðið með 22 stig og 10 fráköst, 28 framlagsstig. Michael Rodriguez var líka góður með 21 stig, 5 fráköst og 11 stoðsendingar, og hæsta framlag okkar manna, 29 punkta. Þá átti Maciek góðan leik, 16 stig og 5 fráköst, 8/8 í skotum og 24 í framlag.
Arminas Kelmelis setti 13 stig og tók 4 fráköst og Hlynur Freyr Einarsson tók nú æfingafjölina sína með og hitti 3/3 úr þristum, skoraði 11 stig, Ari var með 8 stig og 5 fráköst, Svavar skoraði 4 og Elvar Ingi 1 stig.
Þetta var annar sigurleikurinn hjá okkar mönnum í röð, liðið er vonandi komið yfir hæsta hjallann og búið að læra að vinna leiki. Næst er þriðji heimaleikurinn í röð, nk. fimmtudag, 15.11. kl. 19:15 og annar leikurinn á stuttum tíma gegn Sindra, nú í deildinni.
Fyrstu umferð lýkur svo fimmtudaginn 22. nóvember nk. gegn Hetti austur á Egilsstöðum.
Fleiri myndir Björgvins Valentínusarsonar úr leiknum, og frá heimaleikjum Selfossliðsins er að finna með því að smella á hnapp á forsíðunni.