Tveir nýir, ungir og efnilegir leikmenn hafa samið um að leika með Selfossi í 1. deild karla á komandi tímabili.
Arnaldur Grímsson er alinn upp hjá Val. Arnaldur er á 20. aldursári og lék með Vestra í Subway deildinni í fyrra. Hann spilaði þar 10 mínútur, skoraði 3,4 stig og tók 3 fráköst að meðaltali í 21 leik. Arnaldur er öflugur framherji og mjög vaxandi og átti skínandi leiki þegar líða fór á tímabilið.
Ísak Júlíus Perdue er alinn upp hjá Þór í Þorlákshöfn. Hann er á 19. aldursári, hefur stundað nám í FSu og verið í körfuboltaakademíunni á Selfossi. Ísak var í sterkmum leikmannahópi Þórs í Subwaydeildinni í 27 leikjum. Hann leitar nú nýrra tækifæra og stærri áskorana með auknum spilatíma í 1. deildinni. Ísak er ekki hávaxinn en líkamlega sterkur og öflugur leikstjórnandi sem á framtíðina fyrir sér.
Það verður spennandi að sjá þróun þessara tveggja efnilegu leikmanna á nýjum slóðum, en þeir munu báðir fá tækifæri til að láta verulega að sér kveða í 1. deildinni.
Hjartanlega velkomnir, Arnaldur og Ísak Júlíus!