Í gærkvöldi tók stúlknaflokkur á móti liði Vals/Stjörnunnar hér á Selfossi. Eftir slæmt tap í síðasta leik á móti Keflavík komu stelpurnar virkilega tilbúnar til leiks. Orkan í varnarleiknum var alveg hreint til fyrirmyndar og þar var engu til sparað. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og þrátt fyrir lítið stigaskor hjá okkar stelpum voru þær að fá fínar opnanir í sókninni, boltinn vildi bara ekki ofan í. Það var loks í fjórða leikhluta sem FSu náði að slíta sig aðeins frá lið Vals/Stjörnunnar og þegar skammt var til leiksloka var munurinn kominn í 11 stig. Við það duttu stelpurnar okkar í þá frægu gryfju að fara að reyna að verja forskotið í staðinn fyrir að klára leikinn og hleyptu liði Vals/Stjörnunnar aftur inn í leikinn og náðu þær að minnka muninn niður í 4 stig þegar um mínúta var eftir af leiknum. Stelpurnar náðu þó að skora síðustu körfuna og unnu að lokum með 6 stiga sigur 64-58.
Síðasti leikur stelpnanna í deildinni fyrir jól er á sunnudaginn 25. nóvember hér í Vallaskóla og hefst hann kl. 15:00 Hvetjum við alla til að koma og hvetja þær til sigurs.
Stigaskor FSu: Helga 28 stig, Perla 11 stig, Gígja 7 stig, Una 6 stig, Dagrún 5 stig, Milena 4 stig og Hrafnhildur 3 stig.