Nokkrir leikir hafa farið fram í yngri aldursflokkum undanfarna viku.
Fyrst er að segja frá því að ungmennaflokkur Selfoss mætti Fjölni á útivelli laugardaginn 17. september sl. og gekk með sigur af hólmi, 79-84. Okkar menn byrja mótið vel og hafa nú unnið tvo fyrstu leikina en mæta næst Njarðvík heima í Gjánni á sunnudaginn kemur, 25.09. kl. 18. Í leiknum gegn Fjölni var Arnaldur öflugur með 21 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta. Ísak Júlíus setti líka 21 stig og gaf 8 stoðsendingar. Kennedy skoraði 13 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, Birkir Hrafn 11 stig og 3 fráköst, Ísar Freyr 8 stig, 3 frk. og 2 stoðs., Dusan skoraði 6 og tók 11 fráköst og Sigmar Jóhann halaði inn 4 fráköst.
11. flokkur drengja b mætti Stjörnunni c sl. mánudag heima í Gjánni. Þetta var nokkuð jafn leikur en Stjarnan hafði frumkvæðið og okkar menn að teika allan tímann. Það vantaði að loka betur vörninni, því Stjörnustrákar skildu varnarmanninn óþarflega oft eftir í rykinu og komust óáreittir inn í miðjan teiginn þar sem eftirleikurinn var of auðveldur. Selfossliðið sýndi þó góða spretti, er að vinna í að ná tökum á nýjum áherslum í vörn og sókn og verður skeinuhætt þegar það smellur betur saman.
Þriðji leikurinn í þessari lotu var leikinn heima í Gjánni í gærkvöldi þegar 12. flokkur karla mætti Grindavík. Suðurnesjamenn skoruðu fyrstu stigin en þaðan í frá var Selfossliðið með yfirhöndina, og algera yfirburði, sannast sagna, eins og úrslitin gefa til kynna. Leiknum lauk með sigri Selfoss, 100-52. Í 12. flokksliðinu okkar voru í gær 2 leikmenn úr þeim árgangi en uppistaðan eru strákar úr 11. flokki sem fá þar kærkomið tækifæri til að reyna verulega á sig í vetur gegn eldri strákum. Grindavíkurliðið er að líkindum í sömu stöðu, að mestu skipað yngri leikmönnum, og einhver meiðsli hrjá þá væntanlega því nokkrir strákar voru á bekknum í sparibuxunum. Selfossstrákarnir sýndu oft og tíðum flotta takta, hittu vel utan þriggjastigalínunnar og þræddu sig líka skemmtilega gegn um vörn gestanna með listilegum sendingum. Það var gaman að horfa á. Svo sjáum við til hvernig mun ganga gegn sterkari andstæðingi.