Selfoss mætti Álftanesi á útivelli í gærkvöldi í þriðju umferð 1. deildar karla. Leikurinn var sveiflukenndur framan af en frá miðjum þriðja fjórðungi var nokkuð jafnræði með liðunum og spenna hljóp í leikinn. Heimaliðið fór þó feti framar á reynslunni og kláraði sínar sóknir á lokamínútunum meðan Selfyssingum mistókst að setja ofan í skot úr þokkalegum færum, og úrslitin naumur sigur Álftnesinga, 97-91.
Selfossliðið byrjaði af miklum krafti og leiddi 7-22 eftir 7 mínútna leik en 10 stigum munaði eftir fyrsta fjórðung. Álftanes vaknaði til lífsins í öðrum fjórðung og saxaði muninn hratt niður, komst yfir 32-30 með þriggjastigakörfu og leiddi að mestu þaðan í frá, þó aldrei með miklum mun, innan við 10 stigum. Það breytti nokkru að kjölfestan í Selfossliðinu var send í sturtu eftir 15 mínútur, og sannaðist þar að hreyfa skal olnbogana af varúð, jafnvel þó stöðugt sé „verið að stríða manni“. Duga þá engar algengar afsakanir eins og „þetta var alveg óvart“ eða „einhvers staðar verða menn að hafa hendurnar“. Núorðið taka dómarar hart á slíku, og höfum við séð það undanfarið, bæði í Subwaydeildinni hér heima og á nýliðnu Evrópumóti.
En þrátt fyrir smá hikst náðu strákarnir í Selfossliðinu vopnum sínum á ný og sýndu alveg hvað í þeim býr, jöfnuðu metin og komust yfir 59-61. Síðan var jafnt 64-64, 75-75 og 83-83 en heimamenn nýttu reynsluna og voru sterkari á svellinu þegar til kastanna kom.
Dúi Þór átti hreint skínandi dag í Álftanesliðinu og hélt því á floti lengst af sóknarlega, skoraði 35 stig og hitti mjög vel bæði fyrir utan þriggjastigalínuna og inni í teig, þar sem hann dansaði kringum stærri menn og laumaði boltanum í körfuna. Dino Stipcic var framlagshæstur heimamanna með 19 stig og 14 fráköst, Cedrick Bowen skoraði 15 og Ragnar Jósef 13.
Srdjan Stojanovic var stigahæstur í Selfossliðinu með 25 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar en Arnaldur Grímsson stal senunni með 23 stigum, 7 fráköstum og mjög góðri skotnýtingu. Gerald skoraði 9 stig á þessum 15 mínútum sem hann spilaði, og tók 11 fráköst, þannig að ljóst má telja að brotthvarf hans hafi haft nokkur áhrif. Ísak Júlíus setti 10 stig og stjórnaði sinni sveit vel, Birkir Hrafn skoraði 9 stig með 75% nýtingu, Kennedy einnig 9 stig og tók 7 fráköst og Ísar Freyr skoraði 6 stig. Styrmir Jónasar stóð vörnina mjög vel og passaði boltann, og honum mun vaxa fiskur um hrygg smám saman til að láta meira til sín taka í sókninni. Í heildina getur þjálfarinn, og við stuðningsfólk liðsins, verið mjög sátt þó aldrei sé gaman að tapa, sérstaklega við framgöngu okkar ungu stráka. Þeir eiga eftir að spjara sig.
Það sem varð Selfossliðinu helst að falli var slök nýting innan þriggjastigalínunnar, sniðskot, skot eftir sóknarfráköst og önnur skot í teignum nýttust vandræðalega illa á köflum. Fráköstin og stoðsendingar voru í jafnvægi, Selfoss aðeins með yfirhöndina þar, og í stolnum boltum og vítanýtingu, en Álftanes reri þessu til hafnar á reynslunni og betri skotnýtingu.
ÁFRAM SELFOSS!!!