Það má segja að það hafi verið óþarflega létt hjá yngri liðunum okkar um helgina. Þrír leikir á heimavelli og allir unnust með miklum mun, sá „jafnasti“ með 44 stigum.

12. flokkur drengja spilaði á fimmtudaginn gegn Snæfelli í Gjánni. Þennan leik spiluðu einungis 11. flokks strákar, f. 2006, góð blanda úr a og b liði 11. flokks, og spiluðu sem sagt „upp fyrir sig“, mættu mun skipulagðari en andstæðingarnir til leiks og eftirleikurinn var óþarflega auðveldur, 64 stiga sigur, 135 – 71 urðu lokatölur.

11. flokkur b fékk Tindastól í heimsókn í gær, sunnudag. Leikurinn varð einstefna að körfu gestanna, annar stórsigur, 111-43, eða 68 stiga munur. Stólarnir voru fáliðaðir, aðeins 6 leikmenn í búning, og fjórir eftir inni á vellinum síðustu mínútuna.

Strax á eftir mætti 11. flokkur a liði KR. Þar var það sama uppi á teningnum, þriðji stórsigurinn. KR-ingar mættu reyndar bara fjórir, þurftu að fá lánaðan mann hjá okkur til að leikurinn gæti farið fram. Pétur Hartmann fórnaði sér í það verkefni, spilaði í röndóttu og sinn annan leik þann daginn. Úrslitin 119-75.

ÁFRAM SELFOSS!!!