Selfoss tapaði þriðja leiknum í röð í í 1. deild karla í gærkvöldi þegar liðið mætti Ármanni í íþr.húsi Kennaraháskólans. Eftir jafnan fyrsta fjórðung sigu Ármenningar fram úr og leiddu mest með 19 stigum seint í þriðja leikhluta. Selfoss saxaði muninn niður fyrir 10 stig undir lokin en komst aldrei í almennilegt færi á að stela sigrinum og niðurstaðan varð 11 stiga tap, 86-75.
Á sama tíma vann Skallagrímur Skagamenn og við þau tíðindi féll Selfoss niður úr 4. sætinu í það 6. og er þar jafnfætis Ármanni í 5. sæti með 8 sigra en Skallagrímur sæti ofar með 9 sigra. Það er stutt á milli í þessu, því bæði Fjölnir og Hrunamenn eru handan við hornið með 7 sigra og engin leið að spá fyrir um hver röð liðanna í 4.-8. sæti verður að lokum.
En að leiknum. Ármann hefur á að skipa jöfnu liði leikmanna með ágæta reynslu og munurinn á liðunum kristallast sennilega best í því að Ármenningar fengu 40 stig af bekknum á móti 11 stigum af bekk Selfoss, sem er setinn að mestu af 16 ára strákum að stíga sín fyrstu spor í meistarflokki, og þeirra á meðal er Birkir Hrafn sem skoraði 10 af 11 stigum varamanna liðsins. Skotnýting Selfossliðsins var slök, bara 36%, en Ármann skaut 43% og vann líka baráttuna um fráköstin og gaf 12 fleiri stoðsendingar, hvorki meira né minna, en Selfossliðið er aðeins með 7 skráðar stoðseningar á tölfræðiskýrslunni, sem er ekki nema þokkalegur skammtur fyrir svo sem einn leikmann. Eitthvað hefur því vantað upp á flæðið í sóknarleiknum.
Eyjólfur Ásberg var stigahæstur Ármenninga með 14 stig, en þeir skiptu stigum og framlagi bróðurlega á milli sín, glímufélagsmenn. Kristófer Már og Egill Jón settu 13 stig, William Thompson 12, Oddur Birnir 11 og Arnór Hermannsson 10, sex leikmenn með 10+ í stigaskori og fimm þeirra með 10+ í framlag.
Arnaldur var atkvæðamestur í okkar liði með 19 stig, 10 fráköst, mjög góða skotnýtingu og 23 framlagspunkta, annan leikinn í röð með góða tvöfalda tvennu. Frábært stand á Arnaldi þessa dagana. Gerald skoraði 18 stig og tók 7 fráköst og Ísak Júlíus 12 stig. Fyrrnefndur Birkir Hrafn skoraði 10 stig og tók 5 fráköst á 23 mínútum spiluðum, nýtingin mjög góð og hann var næst framlagshæsti leikmaður liðsins. Kennedy skoraði 8 stig og tók 9 fráköst en hitti ekki vel að þessu sinni. Ísar Freyr skoraði 7 stig og Sigmar 1.
Birkir Máni og Ari Hrannar fengu sína eldskírn hjá liðinu, og þó tíminn væri naumur, er frumraunin að baki og framundan er langur og farsæll ferill, ef að líkum lætur og gæfan og góðar vættir verða hliðholl. Við bíðum þolinmóð eftir að þeir verði tilbúnir að láta til sín taka, ásamt félögum sínum úr 10. og 11. flokki sem bíða í langri röð eftir að þeirra tími renni upp.
Næsti leikur er gegn Fjölni nk. mánudag, 6. febrúar, kl. 19:15 í Grafarvogi. Að honum loknum er komið að heimaleik í Gjánni, gegn Hrunamönnum föstudaginn 10. febrúar kl. 19:15.
ÁFRAM SELFOSS!!!