Um helgina fóru fram nokkrir leikir hjá yngri flokkunum okkar. Minnibolti 11 ára spilaði í Þorlákshöfn, b-lið drengjaflokks spilaði tvo leiki á Selfossi og stúlknaflokkur átti heimaleik á móti KR.
Minnibolti 11 ára spilaði á sínu þriðja Íslandsmóti í vetur þegar þeir mættu á mót í Þorlákshöfn. Tvö lið frá okkur tóku þátt og voru bæði liðin að spila í c-riðli en ekki sama riðlinum þó. A-liðið spilaði hörkuleiki á laugardeginum þar sem einn vannst með tveimur stigum en hinn tapaðist með tveimur stigum, á sunnudeginum unnu þeir svo báða leikina sína nokkuð auðveldlega. B-liðið spilaði líka tvo leiki hvorn dag og þrátt fyrir hetjulega baráttu töpuðust allir leikirnir að þessu sinni. Björn Ásgeir þjálfari strákanna var mjög ánægður með frammistöðu beggja liða um helgina og sagði framfarirnar augljósar.
B-lið drengjaflokks spilaði á móti Hetti/Sindra á laugardaginn. Um var að ræða hörkuleik sem var í járnum allan tímann þar sem liðin skiptust að mestu á að hafa forystu. Það var þó um miðbik 4. leikhluta þar sem okkar strákar í FSu náðu að slíta sig aðeins frá gestunum og unnu að lokum 9 stiga sigur, 69-60.
Á sunnudeginum spiluðu þeir svo aftur en að þessu sinni var það lið Tindastóls sem var í heimsókn. Strákarnir okkar byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu með 9 stigum eftir 1. leikhluta. Þá skelltu gestirnir í svæðisvörn sem illa gekk að leysa og í hálfleik var Tindastóll komið yfir 33-39. Síðari hálfleikur var svo alltaf eltingaleikur þar sem okkar strákum gekk illa að ná gestunum sem voru þó aldrei langt undan. Hálfleikurinn einkenndist mikið af klaufalegum villum en Tindastóll fékk 20 vítaskot bara í seinni hálfleik. Að lokum endaði leikurinn með 5 stiga sigri gestanna, 69-75.
Stigaskor FSu: Sigurður Dagur 20 stig, Arnar Dagur 20 stig, Sigmar 10 stig, Sigurður Karl 8 stig, Dagur 4 stig, Gísli 3 stig, Daníel 2 stig og Anthony 2 stig.
Stúlknaflokkur fékk KR í heimsókn en leikurinn fór einnig fram á sunnudeginum. Stelpurnar byrjuðu leikinn frekar dauflega og lentu strax undir á upphafsmínútum leiksins og voru undir allan leikinn þrátt fyrir nokkur ágæt áhlaup. Slakur varnarleikur og klaufaleg brot komu í veg fyrir að stelpurnar næðu stoppum í vörninni en gestirnir í KR fengu 41 vítaskot í leiknum og þrátt fyrir nokkuð slaka vítanýtingu þá kom 21 stig þeirra af vítalínunni. KR sigraði leikinn nokkuð örugglega, 66-84 var staðan.
Stigaskor FSu: Dagrún 15 stig, Una Bóel 14 stig, Helga Sóley 10 stig, Perla 9 stig, Gígja 8 stig, Margrét 6 stig, Ingibjörg 2 stig, Emma 1 stig og Hjörný 1 stig.