Páll Ingason og Arnór Bjarki Eyþórsson hafa skrifað undir leikmannasamninga og verða með Selfossliðinu næsta árið. Þeir eru tveir af þeim ungu mönnum sem félagið horfir til sem hluta af kjarna næstu kynslóðar leikmannahópsins.
Páll Ingason er nýorðinn tvítugur og stefnir nú í fjórða ár sitt hjá félaginu. Síðasta tímabil var reyndar erfitt fyrir Palla, því hann átti í leiðinda nárameiðslum og gat lítið beitt sér. Hann náði þó nokkrum leikjum með unglingaflokki og var einnig í leikmannahópi meistaraflokks. Nú eru meiðslin að baki og beinn og breiður vegur framundan.
Arnór Bjarki er á 18. ári, fæddur 2001, og kemur úr yngriflokkastarfi félagsins. Hann byrjaði þó frekar seint í körfubolta en hefur tekið miklum framförm á stuttum tíma. Hann er vel vopnum búinn hvað líkamlegt atgervi áhrærir og á framtíðina fyrir sér. Arnór var lykilmaður í bæði drengjaflokki og unglingaflokki í vetur og kom einnig aðeins við sögu í meistaraflokki.
Það verður spennandi að fylgjast með báðum þessum heiðurspiltum á vellinum næsta vetur eftir öflugt undirbúningstímabil, sem þegar er hafið.
Velkomnir til leiks, báðir tveir!!