B hópur 10. flokks drengja mætti C hóp Stjörnunnar á heimavelli í Gjánni í kvöld. Það var á brattann að sækja fyrir okkar menn allan tímann og gestirnir unnu nokkuð öruggan 13 stiga sigur, 63-76.
Stjarnan byrjaði leikinn mun betur, varnarleikur heimastráka var slakur og gestirnir skoruðu úr hverju fría sniðskotinu á fætur öðru. Í stöðunni 0-10 á upphafsmínútunum höfðu þjáflarar Selfossliðsins séð nóg í bili og tóku leikhlé. Eftir það fór að ganga betur og Selfoss minnkaði muninn í 2 stig, 18-20, og virtist vera með alla möguleika opna. En Stjarnan sleit sig aftur frá, jók muninn í 10 stig, 23-33, og hafði tögl og hagldir allt fram á lokamínúturnar. Þá náði Selfoss að skera forskotið niður í 5 stig, en getirnir áttu síðasta orðið, settu erfiða þrista í andlitið á okkur og unnu þægilegan sigur.
Það sem gerði útslagið í leiknum var að leikmenn Stjörnunnar voru miklu grimmari í fráköstum og svo hittu þeir afburða vel úr allskonar þriggjastigaskotum. Varnarleikur okkar manna var ekki nægilega góður, sérstaklega í fyrri hálfleik og svo duttu sksotin ekki að þessu sinni, boltinn dansaði oft á hringnum en vildi ekki ofan í. Þegar það er uppi á teningnum, sem alltaf getur gerst, ríður á að vörnin haldi. Þetta laga strákarnir fyrir næsta leik.
Benjamín Rökkvi var stigahæstur í liði Selfoss með 18 stig, Hafþór Elí og Fjölnir Þór skoruðu báðir 12, Hjörvar 6, Sindri Snær og Kristófer Logi 4, Böðvar Thor 3 og þeir Dagur Nökkvi og Benjamín Magnús 2 stig hvor. Baldur og Egill Baltasar léku líka með en skoruðu ekki að þessu sinni.
ÁFRAM SELFOSS!!!