Eftir ágæta rispu undanfarið datt Selfossliðið aftur í sama farið í síðasta leik, sem var á heimavelli gegn Hamri sl. föstudagskvöld, 1. febrúar. Liðið getur spilað vel en skortir  tilfinnanlega þann stöðugleika sem nauðsynlegur er til að vinna fleiri leiki gegn liðunum í efri hluta deildarinnar. Það var einmitt upp á teningnum í þessum leik; ekki voru allir nógu vel stilltir og fyrir vikið glutraðist niður gullið tækifæri til að koma liðinu í kjörstöðu fyrir framhaldið. En þrátt fyrir mjög köflóttan leik munaði samt aðeins hársbreidd að sigurinn hefði fallið okkur í skaut, lokaskotið geigaði og Hamar vann 94-97.

Jafnt var á fyrstu tölum en snemma seig Hamarsliðið aðeins framúr, leiddi 21-25 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum fjórðung náðu gestirnir svo fljótlega að auka bilið og héldu 8-10 stiga forystu til loka þriðja leikhluta.

Selfossliðið hóf lokafjórðunginn af krafti, skoraði 8-0 og saxaði forskotið í 2 stig, 68-70. Hamar náði þó að svara fyrir sig, jafnvel með ódýrum körfum eftir grátlega tapaða bolta. Selfoss hélt í vonina með áhlaupum, 79-80 og svo 88-90 þegar um mínúta var eftir, en alltaf vantaði þennan herslumun til að taka frumkvæðið, og Hamar hefur á að skipa leikmanni sem nýtir sér vel mistök og tekur réttar ákvarðanir þegar mikið er undir.

Eins og fyrr var Everege Richardson „mest í flestu“ hjá Hamri, skoraði að vísu minna en oftast, „bara“ 23 stig, en tók 9 fráköst, gaf a.m.k. 4 stoðsendingar og stal 5 boltum. Nýi erlendi leikmaðurinn þeirra Hvergerðinga, Julian Rajic sem kom frá Njarðvík daginn fyrir leik, gerði trúlega gæfumuninn með 17 stigum, 5 fráköstum og úrvalsskotnýtingu. Einnig munaði verulega um 16 stig Ragnars Jósefs, sem kom frá Breiðabliki fyrir skömmu og Geir Elías byrjaði leikinn með látum, skoraði 9 stig úr fjórum skotum í upphafi leiks, en meiddist og gat ekki komið meira við sögu. Oddur Ólafsson er alltaf sami prímusmótorinn og lék vel að vanda, 8 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar, og Marko Milekic var öflugur með 8 stig og 10 fráköst. Annars settu 10 leikmenn Hamars stig á töfluna.

Í okkar liði voru þrír jafnir og efstir í stigaskori með 20 stig hver; Chaed Wellian, sem átti sinn besta leik hingað til með 9 fráköst og 4 stoðsendingar að auki, Hlynur Hreinsson, sem var góður og nýtti skotin sín sérlega vel, og Marvin Smith Jr. Hann var þó of lengi í gang, bara með 3 stig í hálfleik og í villuvandræðum, ekki nógu vel áttaður, en gerði þó mun betur í seinni hálfleik. Snjólfur og Björn Ásgeir skoruðu 8 stig hvor, Ari 7 (5 frk. og 4 sts.) en missti af lokamínútunum með 5 villur, eins og Maciek, sem skoraði 5 stig. Hlynur Freyr bætti við 4 stigum og Svavar Ingi 2.

Af tölfræðisamanburðinum má sjá hvar leikurinn tapaðist. Hamar vann frákastabaráttuna 34-42 og fékk að valsa of mikið inni í teig, með 66% nýtingu í tveggjastigaskotum, of stór hluti af því sniðskot. Þá var vítanýting Selfossliðsins aðeins 63%, sem er varla boðlegt, en alls 10 vítaskot fóru í vaskinn hjá liðinu.

Hvað dómgæsluna varðar, þá var hún á köflum undarleg. Tækni- og óíþróttamannslegar villur virtust handahófskenndar, og þó þegar á villufjölda er litið hafi almennt séð ekki hallað á, var samt ljóst að besti leikmaður Selfossliðsins var frystur fljótlega með einhverjar villur sem hann hins vegar fékk alls ekki dæmdar á brot gegn sér.

En þessi leikur er búinn og sá næsti bíður, gegn Þór norður á Akureyri nk. föstudag kl. 19:15. Það verður erfiður leikur, en allt er hægt með samstilltu átaki. Síðan bíða Vestri (heima) og Fjölnir (úti) áður en lokaspretturinn skellur á (Sindri (h), Snæfell (h), Höttur (ú)).