Almennt um rekstur akademíunnar

Körfuboltaakademían við FSu er rekin af Körfuknattleiksfélagi Selfoss, með stuðningi og í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Kennarar akademíunnar eru starfsmenn Selfoss-Körfu. Kennsla fer fram í Íþróttahúsinu Iðu, við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Akademían hefur sem stendur ekki á að skipa keppnisliði sem tekur þátt í opinberum mótum, en mun gera það ef/þegar aðstæður eru fyrir hendi.

Selfoss-Karfa hefur hjálpað mörgum nemendum akademíunnar við að fá fullan skólastyrk í Bandaríkjunum á ýmsum stigum: Í 1. og 2. deildarskólum í NCAA, 1. deildarskólum í Junior College og 1. deildarskólum í NAIA. Við höfum einnig vísað nemendum okkar í fleiri áttir, ef hugur þeirra stefnir ekki á framhaldsmenntun, t.d. hjálpað þeim við að ná atvinnumannasamningum.

Skipulag Akademíunnar

Skipulag akademíunnar er með þeim hætti að iðkendur æfa 2 sinnum í viku á skólatíma, 2x  110 mín. Æfingatímar eru því kennslustundir í stundatöflu Fjölbrautaskólans og um þær gilda sömu kröfur um mætingaskyldu, námsárangur og aðrar formlegar skólareglur eins og um annað nám í skólanum.

Markmið akademíunnar er að aðstoða nemendur við að byggja sig upp og bæta sig á öllum sviðum körfuboltans. Áhersla er lögð á eftirtalda þætti:

  • Tæknileg grunnhæfni
  • Leikskilningur
  • Líkamsstyrkur
  • Næring og mataræði
  • Liðssamvinna
  • Andlegur styrkur
  • Leiðtogahæfni

Þetta er bæði gert í gegnum einstaklingsmiðaða þjálfun í grunnþáttum körfuboltans og í gegnum liðsæfingar þar sem er farið yfir í þætti sem snúa að leikskilningi. Þá eru samvinna og liðsheild mikilvægir þættir þjálfunarinnar þar sem nemendur læra hvernig það er að vera hluti af hópi og hvaða skyldur fylgja því.

Akademían er aðskilin öðru starfi Körfuknattleiksfélags Selfoss að því leyti að þátttakendur í henni þurfa ekki að vera félagsbundnir þar heldur geta verið skráðir í sitt heimafélag og keppt með því óháð þátttöku í akademíunni. Akademían er því gott tækifæri fyrir hvern sem er til að bæta sig í körfubolta og ná árangri á eigin forsendum.

Fjöldi eininga

Körfuboltaakademían er valgrein í námskrá skólans og fá nemendur 5 einingar fyrir hvern áfanga. Í boði eru alls 6 áfangar í akademíunni.

Skráning og kostnaður

Skráning í körfuboltaakademíuna, eins og annað nám við FSu, fer fram á skrifstofu skólans en aðalþjálfari (arnithorhilmars@gmail.com) og forsvarsmaður Selfoss-Körfu (selfosskarfa@gmail.com) veita nánari upplýsingar ef spurningar vakna.

Skráningargjald í körfuboltaakademíuna er kr. 60.500,- á önn. Skráningargjaldið stendur undir hluta af kostnaði við reksturinn. Kennarar akademíunnar eru ekki á launaskrá hjá Fjölbrautaskólanum heldur eru þeir starfsmenn Selfoss-Körfu. Langstærsti hluti rekstararkostnaðarins, eins og í öllum öðrum rekstri, er launakostnaður.

Agi – Virðing – Árangur

Eitt meginmarkmið þessa verkefnis er að gera afreksíþróttamönnum það raunhæft að ná samtímis besta árangri í námi og íþróttinni; að flétta nám og þjálfun saman sem órofa heild við bestu aðstæður. Gerð er krafa um sjálfsaga og virðingu fyrir markmiðum hvers einstaklings og hópsins um að hámarka árangur sinn. Í því felst m.a. að nemendur akademíunnar neyti ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna.

Hvaða þýðingu hefur það að vera hluti af körfuboltaakademíunni?

Það er stórt og mikilvægt skref fyrir íþróttamann að vera í akademíunni. Í því felst skuldbinding um að taka íþróttina alvarlega, æfa meira en gengur og gerist, og það er yfirlýsing um að ætla sér að ná eins langt og kostur er. Allir sem þess óska geta skráð sig í akademíuna og tekið þátt í starfi hennar, burt séð frá kunnáttu í körfuknattleik. Auðvelt er að skipta salnum og getuskipta hópnum þannig að allir þátttakendur fái verkefni við hæfi.

Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við erlenda skóla hefur verið mikilvægur þáttur í starfi félagsins og akademíunnar. Margir einstaklingar hafa, með aðstoð þjálfara og forsvarsmanna hennar, fengið námsstyrk við skóla í Bandaríkjunum og nemendur frá Englandi, Króatíu, Ítalíu, Skotlandi og Danmörku, og fleiri Evrópulöndum, hafa stundað nám við Körfuboltaakademíu Selfoss-Körfu og FSu. Áhersla er lögð á að efla þennan þátt starfseminnar í framtíðinni.

Tækifæri til að leika með m.fl. í 1. deild karla

Körfuboltaakademían við FSu er rekin af Selfoss-Körfu og er yfirþjálfari hennar Árni Þór Hilmarsson.

Allir nemendur akademíunnar, sem skráðir eru í Körfuknattleiksfélag Selfoss, eiga þess kost að reyna sig í keppnisliðum Selfoss, drengjaflokki, stúlknaflokki, unglingaflokki eða meistaraflokki, ef þeir standa sig á æfingum og eru tilbúnir líkamlega í slík átök. Auk þess er ekki óalgengt að nágrannafélögin, Selfoss, Hamar, Umf. Hrunamanna og Þór, sendi til keppni sameiginleg lið í yngri aldursflokkunum, sem gefur tækifæri til þátttöku í keppni án þess að skipta um félag.

Stuðningsnet til að þróa ferilinn eftir framhaldsskóla

Akademían leggur metnað í að undirbúa nemendur sína undir að splia körfubolta á háu stigi, hvort sem er við háskóla í Bandaríkjunum eða á atvinnustigi heima og erlendis. En undirbúningur leikmannsins er aðeins hluti leiðarinnar á þann stað. Við getum hjálpað nemendum  að taka síðustu skrefin með því að koma á samböndum við rétta fólkið (háskólaþjálfara/traustar umboðsskrifstofur) út frá markmiðum hvers og eins.

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur Car Rental Iceland
Ræktó
Ræktó
Ræktó