Það lítur kannski út eins og afneitun á hæsta stigi að vera þokkalega sáttur eftir að hafa tapað þriðja leiknum í röð. En leikur okkar manna í Gjánni í kvöld gegn Vestra var um margt mjög góður. Þetta var mjög jafn leikur sem „hefði getað“ endað hvoru liðinu sem var í hag. En með sína þrjá afbragðs atvinnumenn, sem alltaf standa undir væntingum, eru Ísfirðingar bara illviðráðanlegir og ekkert dugar gegn þeim annað en skynsemi og nánast gallalaus leikur. Lokatölur 84-89, og framfarirnar frá síðasta leik nánast ólýsanlegar.

Selfoss byrjaði betur og leiddi nánast allan fyrsta fjórðunginn. Fyrstu tölur 5-0, síðan 20-12, en Vestri tók þá 2-12 kipp og leiddi 22-24 eftir 10 mín. Vestanmenn voru skrefinu á undan allan annan fjórðunginn og síðust 2 mín. fyrir hálfleik breyttu þeir stöðunni úr 38-41 í 39-50,
og mest var um að kenna einbeitingarleysi okkar manna og slæmum ákvörðunum í sókninni sem Vestri refsaði grimmilega fyrir. Segja má, þegar leikurinn er gerður upp eftir á, að þarna hafi Selfossliðið tapað leiknum.

Þriðja leikhluta vann Selfoss með 6 stigum, 21-15, og hafði þá þétt varnarleikinn til muna, og eftir 4 mín. í síðasta hluta voru strákarnir búnir að jafna metin 71-71. Selfoss spilað frábæra vörn og hraðan sóknarleik á þessum kafla og brunaði fimm stigum fram úr, 76-71, og stuðningsmenn farnir að færa sig fram á brún ystu áhorfendabekkjanna. En síðustu mínúturnar vantaði einbeitinguna og skynsemina til að klára dæmið; tapaðir boltar og illa ígrunduð skot gáfu gestunum færi á að jafna 84-84, og hinir frábæru „Knezevic-bræður“ sigldu svo togaranum að landi.

Eins og jafnan var Nebojsa Knezevic bestur Vestramanna. Hann var með 27 stig, 7 stoðs., 62% skotnýtingu, 9/9 í vítum, 29 framlagspunkta og er allt í öllu hjá liðinu; skorar fyrir utan þriggja stiga línuna, keyrir inn í vörnina eða tekur sér stöðu á lágteignum. Frábær skytta af öllu færi sem „hæfir allt það er hann skýtur til“, svo vitnað sé í Njálu, og einnig með úrvalsgóðar fóta- og gabbhreyfingar inni í teig, svo unun er á að horfa. Og ef hann er tvídekkaður finnur hann alltaf opna manninn. Óborganlegur leikmaður sem lætur alla liðsfélaga sína líta vel út. Nemanja Knezevic nýtur góðs af nafna sínum, og er að auki sennilega besti miðherjinn á Íslandi. Hann var meira en handfylli fyrir okkar stráka að eiga við. Liðið gerði þó vel að halda honum í „aðeins“ 21 stigi og 11 fráköstum, sem eru, skv. óábyrgum sögusögnum, fæst fráköst hjá honum síðan í minnibolta. Hann fiskaði einnig 10 villur og fékk 13 vítaskot. Sem minnir ritara á að vítaskotatölfræðin var 17-27 Vestra í hag (og ekki við tölfræðiskrásetjarana að sakast þar, hvað KKÍ athugi). Þar af tóku Knezevic-nafnar 22 víti. Þriðji atvinnumaður Vestra, André Huges, var líka öflugur með 16 stig , 7 fráköst og 17 framlagspunkta. Þessir þrír höluðu því inn 71 af 92 framlagsstigum Vestra. Ingimar Aron átti líka ágætan dag og þeir Guðmundur Auðun settu þrista í andlitið á heimamönnum á mikilvægum augnablikum.

Af okkar mönnum er það að segja að Michael Rodriguez sýndi glitta vel í það sem í honum býr. Hann skoraði 29 stig og var frákastahæstur Selfyssinga, þessi litli tappi, með 8 stykki, bætti við 5 stoðsendingum, 61% skotnýtingu og 30 framlagspunktum. Hann er líka góður varnarmaður og verður sannarlega til útflutnings þegar hann verður kominn í fullt form.

Ari Gylfason var afbragðsgóður í kvöld, með 21 stig, 78% skotnýtingu, 4 fráköst, úrvals varnarleik og 26 framlagsstig. Hann var kominn með 15 stig í fyrri hálfleik og liðið hefði gjarnan mátt leita meira að honum í seinni hálfleik.

Björn Ásgeir átti góðan leik, 12 stig, 50% nýtingu og 4 fráköst. Nýliðinn hjá Selfossliðinu, Snjólfur Marel Stefánsson, Njarðvíkingur á venslasamningi, sýndi hvað í hann er spunnið,
og eftir örstuttan aðlögunartíma var ekki að sjá annað en hann væri gjörkunnugur aðstæðum og liðsfélögunum. Hann setti 12 stig og tók 6 fráköst.

Hlynur Freyr (2 stig, 5 fráköst), Maciek (6 stig og 6 fráköst) og Adam Smári (2 stig og 2 fráköst) bættu því við sem á vantar í tölfræðina.

Þegar á allt er litið er ljóst að í Selfossliðinu er mannskapur sem getur gert gott mót. Til staðar er baráttuvilji og hæfileikar, og þegar við bætist með tímanum meiri samhæfing og skýrari hlutverkaskipting, þá er aldrei að vita hvað getur gerst. Kannski vinnum við leik að lokum?

ÁFRAM SELFOSS.

Ps. Þó héraðsfjölmiðlarnir láti ekki sjá sig á körfuboltaleikjum þá seldist Pizzan upp.