Það var allt í járnum í Hveragerði í kvöld þegar Selfoss mætti Hamri í sjóðheitri Frystikistunni í fyrsta leik undanúrslita 1. deildar karla. Hamar jafnaði leikinn á síðustu stundu og tryggði sér framlengingu, þar sem hann var sterkari á taugum og tryggði sér sigur, 105-101. Þetta var hraður og skemmtilegur leikur og hafði upp á allt að bjóða, eins og nágrannaslagur á að gera.
Selfoss byrjaði betur og komst 11 stigum yfir, 8-19, eftir 5 mínútur. Hamar jafnaði 32-32 fljótlega í 2. leikhluta og eftir það var leikurinn í járnum, Selfoss oftast yfir, kannski 4-5 stigum, en Hamar jafnaði óðara metin. Jose Medina Aldana var þeirra bjargvættur á ögurstundu, þræddi boltann gegnum vörn Selfyssinga á samherja í auðvelt sniðskot um leið og flautan gall, 98-98, og framlengt. Það sama var uppi á teningnum við lok framlengingar, þegar Hamar var 2 stigum yfir, 103-101, fann hann Lutterman á auðum sjó undir körfunni þegar 10 sek voru eftir, 105-101, og gerði þannig í raun út um leikinn, Selfoss náði engu út úr innkastkerfi og tíminn fjaraði út.
Aldana var hreint út sagt stórkostlegur í þessum leik, skoraði 33 stig, tók 10 fráköst og gaf 20, segi og skrifa 20 stoðsendingar. Hann bjó til nánst öll 22 stig Luttermans, og Hamarsliðsins meira og minna. Lutterman hriti að auki 12 fráköst og skilaði 32 framlagspunktum. Ragnar Jósef var góður með 20 stig, Pálmi sömuleiðis með 18 og góða skotnýtingu.
Selfossliðið mætti tilbúið til leiks og það var engin leið að sjá að hér mættust næstefsta og næstneðsta liðið í deildinni. Selfyssingar geta sjálfum sér um kennt að hafa tapað þessum leik, augnabliks einbeitingarleysi í varnarleiknum á ögurstundu varð liðinu að falli. Fjórir leikmenn spiluðu frá 39 upp í 43 mínútur og sá fimmti 33, og þegar mikið lá við í framlengingunni klikkuðu tvö sniðskot sem reyndist dýrkeypt.
Terrance átti sinn besta leik í vetur, skoraði 35 stig og gaf 7 stoðsendingar, 29 frl. punktar. Kennedy skoraði 20 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, 28 í frl. Kristijan var með 19 stig, 6 sts. og 4 fráköst, 25 frl. Sveinn Búi setti 17 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, 27 frl. Arnór Bjarki skoraði 7 stig, en var óheppinn að nokkrir þristar snerust upp úr hringnum, tók 4 frk. og gaf 4 sts. Owen skoraði þau 3 stig sem upp á vantar.
Þetta var án vafa besti leikur Selfoss í vetur og sárgrætilega lítið vantaði upp á að halda sjó síðustu sekúndurnar og stela heimavellinum af Hvergerðingum. Næst er heimaleikur, föstudaginn 21. maí, og verður spennandi að sjá hvort strákarnir koma ekki eins og öskrandi ljón í þann leik. Ef serían dregst á langinn mun eitthvað verða undan að láta, nema þjálfararnir dreifi mínútum meira. Getið hefur verið um álagið á byrjunarlið Selfoss en það var svipað hjá Hamri þar sem fjórir leikmenn spiluðu meira en 37 mínútur.
Það er gaman að skoða tölfræðisamanburðinn, þar sem jafnt er á flestum tölum. Skotnýtingin nánast jöfn, fráköstin, villur og tapðaðir boltar. Og þrátt fyrir 20 stoðsendingar Aldana gaf Hamarsliðið bara 4 stoðsendingum fleiri en Selfoss.
Hvað sem úrslitunum líður er ekki hægt að hugsa sér betri vettvang fyrir unga menn að þroska leik sinn en svona úrslitakeppni og leiki eins og þennan. Vonandi er hann fyrirboði stórskemmtilegrar viðureignar.