Selfoss mætti Sindra í kvöld á heimavelli sínum í Gjánni. Þetta var allra síðasta hálmstráið fyrir Selfossliðið að hanga í til að ná inn í úrstlitakeppnina, en það reyndist ekki sú rótfasta hvönn sem bjargaði Þorgeiri skorargeir í Látrabjargi forðum, og Sindri vann öruggan sigur, 97-114.
Með sigri í tveimur síðustu leikjum, gegn Fjölni og Sindra, væri Selfossliðið nú í 4. sæti og í góðum málum, en mönnum voru bara of mislagðar hendur og glopruðu tækifærunum alveg á eigin spýtur.
Fyrsti leikhluti í kvöld var jafn og gaf ágæt fyrirheit um spennandi leik. Sindri leiddi þó með 5, 26-31, að honum loknum. Í öðrum hluta gáfu gestirnir strax í skyn hvert stefndi. Munurinn jókst smám saman, fór í 20 stig, 43-63, á 18. mínútu en var 13 stig í hálfleik, 51-64. Það er náttúrulega góðs viti að skora 51 stig í fyrri hálfleik en á móti ekki vænlegt til árangurs að fá á sig 64! Það var með hreinum ólíkindum hvað Sindraliðið hitti fyrir utan þriggjastigalínuna, sama hvaða leikmaður henti boltanum, allt fór ofan í.
Um miðjan þriðja hluta var Gerald Robinson sendur í sturtu með tvær tæknivillur. Þá fyrri fyrir að rökræða við andstæðing, sem fékk einnig tæknivillu, en þá síðari fyrir að hanga, að mati dómarans, of lengi í hringnum eftir troðslu. Kannski er til eitthvað um þetta í regluverkinu, en hvorugt atvikið var af því tagi að ástæða væri til þessara viðbragða.
En hvað um það. Munurinn var um þessar mundir 17 stig og svo sem varla úrslitaatriði, en Gerald kominn með 19 stig. Í fjórða hluta fór munurinn í 25 stig en ungu strákarnir og Trevon komu honum niður í 13, en niðurstaðan sem sagt 17 stiga sigur Sindra.
Það sem gerði útslagið í leiknum var óeðlilega góð þriggjastiganýting Sindra, sérstaklega í fyrri hálfleik, og 50% í leikslok, en liðið hittir að jafnaði tæplega 35% úr þristum. Sindri var líka sterkari í fráköstum, tók 44 gegn 29, og munaði þar vissulega mikið um Gerald, sem er besti frákastari Selfossliðsins.
Trevon var mjög góður í kvöld, besti maður vallarins með 31 stig, 6 fráköst og 10 stoðsendingar, 40 framlagspunkta. Gerald skoraði 19 og Gasper var með 14 + 8 fráköst. Ísar Freyr setti 10 stig og Vito sömuleiðis. Birkir Hrafn með 6 stig og 2 fráköst og Styrmir 5 stig og 3 fráköst áttu báðir fína spretti og Sigmar sömuleiðis og skoraði 2 stig.
Næst mætir Selfoss þaulmönnuðu toppliði Hauka, annar heimaleikur í Gjánni strax á föstudaginn kemur kl. 19:15.
ÁFRAM SELFOSS!!!