Þetta var sannarlega annasöm helgi hjá félaginu. Hvorki fleiri né færri en 13 leikir hjá yngriflokkaliðunum og meistarflokkur lék einnig æfingaleik. Inn á milli keppnisleikja var svo skotið gróðursetningu úti í regngrárri náttúrunni, eins og getið er um hér í annarri frétt.
Keppnishelgin hófst í Gjánni með leik Selfoss b gegn Þór Þorlákshöfn í 10. flokki drengja kl. 17:30 á föstudaginn. Selfoss vann leikinn örugglega með 25 stiga mun, 65-40, og annan leik sinn í röð í upphafi móts.
Strax í kjölfarið tók m.fl. karla við og mætti Úrvalsdeildarliði Vals í æfingaleik. Selfoss var yfir í hálfleik, 47-42, en Valur skoraði fyrsta 21 stigið í seinni hálfleik og gerði út um leikinn. Fjórði leikhluti var jafn, en Valur vann 106-87. Nú eru flestir leikmennirnir mættir og hægt að farea að pússa saman nýju liði. Þetta eru sem fyrr ungir leikmenn, með einn reynslubolta, Gerald Robinson, sér til stuðnings. Trevon Evans setti 24 stig, Gerald 19, Gasper Rojko 12, Óli Gunnar 10, Vito Smojver 10, Gabríel 6, Arnar Líndal 3, Sigmar 2 og Styrmir Jónasar 1 stig.
7. flokkur drengja spilaði í fjölliðamóti í Hafnarfirði, lék tvo leiki á laugardag og aðra tvo á sunnudeginum. Þetta voru hörku leikir en Selfossliðið vann alla fjóra leikina. Vel gert piltar! Úrslitin voru sem hér segir:
Selfoss-Hrunamenn/Laugdælir: 34-33
Selfoss-Þór Þ.: 40-37
Selfoss-Haukar b: 30-25
Selfoss-Aþena: 37-32
7. flokkur stúlkna fékk sömu dagskrá og strákarnir. Stelpurnar okkar spila með stöllum sínum úr Hrunamannahreppi og gerðu vel, unnu einn leik og voru nálægt sigri í öðrum. Úrslit leikjanna voru eftirfarandi:
Hrun/Selfoss – Keflavík b: 8-25
Hrun/Selfoss – Stjarnan b: 28-25
Hrun/Selfoss – Fjölnir b: 23-26
Hrun/Selfoss – Skallagrímur: 16-46
Tveir stakir leikir voru á dagskrá á laugardag. Selfoss/Hamar/Hrunamenn mættu Tindastóli á Sauðárkróki í 10. fl. stúlkna og gerðu góða ferð, unnu 20 stiga sigur í baráttuleik, 33-53. Stelpurnar rifu sig því aldeilis upp frá fyrsta leiknum um daginn, eins og spáð hafði verið að þær myndu gera með ögn meiri samæfingu.
Á sama tíma var leikur hjá 9. flokki drengja í Gjánni. Þar mættust Selfoss/Hamar og KR b. Heimaliðið hafði tögl og hagldir allan tímann og vann að lokum 47 – 31. Það gerir þennan sigur sætari að vantaði tvo af máttarstólpum okkar í þessum aldursflokki, Jói frá vegna meðsla og Hafþór þurfti að hætta snemma vegna meiðsla.
Á sunnudag, var b lið 10. fl. drengja aftur á ferðinni. Að þessu sinni á útivelli í Origo höll þeirra Valsmanna á Hlíðarenda. Þetta var æsispennandi leikur sem gat farið allavega en Valur landaði tveggja stiga sigri á síðustu stundu, 47 – 45.
Í Gjánni tók a lið 10. fl. drengja á móti ÍA. Þetta var ójafn leikur og þó Skagastrákar hafi reynt sitt besta var Selfossliðið skrefi á undan í öllum aðgerðum og vann stóran sigur, 91-24.
Yngriflokkarnir skiluðu því góðu sigurhlutfalli um helgina. Það sem meira er um vert er þó að allir þessir krakkar eru sjálfum sér og félaginu sínu til mikils sóma. Það verður gaman að fylgjast með þróuninni fram eftir hausti hjá öllum okkar liðum.