Um helgina var nóg um að vera hjá liðunum okkar í yngri flokkum. Þrjú lið úr 7. flokki, tvö strákalið og eitt stelpulið, kepptu á sínu fyrsta móti í vetur. Á Selfossi keppti a-lið stráka í C-riðli og stóðu sig mjög vel, unnu þrjá leiki af fjórum. Á Akranesi keppti b-liðið í D-riðli og stóðu þeir sig einnig mjög vel þó að allir leikirnir hafi tapast. Þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið okkur í hag var gríðarlegan mun að sjá á liðinu milli daga og leiðin liggur bara upp á við. Stelpurnar okkar í 7. flokki kepptu í Garðabæ í B-riðli með sameiginlegu liði Þórs/Hrunamanna/Selfoss ásamt því eiga Hvergerðingar fulltrúa í þessum hópi. Í stuttu máli gekk þetta samstarf vonum framar og unnu stelpurnar sinn riðil og keppa því næst í A-riðli. Í heildina gekk helgin mjög vel og frábært að í sama árgangnum skulum við hafa 25 iðkendur og má því með sanni segja að framtíðin sé björt.

Á sunnudaginn ferðaðist a-lið drengjaflokks á Sauðárkrók og öttu þar kappi við heimamenn í Tindastól. Eftir smá taugatitring í upphafi leiks náðu okkar strákar jafnvægi í sinn leik og voru komnir með gott forskot í hálfleik, 45-21. Segja má að Tindastóll hafi komið brjálaðir til leiks í síðari hálfleiks og leikurinn var á köflum mjög grófur og einkenndist þriðji leikhlutinn af mikilli baráttu og klaufalegum mistökum. Eftir erfiðan þriðja leikhluta sigldu okkar menn lygnan sjó í fjórða leikhluta og unnu að lokum þægilegan 29 stiga sigur, 83-54.

Stigaskor FSu: Styrmir 39 stig, Arnór 15 stig, Sæmundur 13 stig, Tristan 7 stig, Viktor 5 stig, Sævar 2 stig og Jakob 2 stig.

Stúlknaflokkur spilaði sömuleiðis á útivelli á sunnudaginn þegar þær heimsóttu KR í DHL-höllina. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik en heimastúlkur í KR voru alltaf skrefinu á undan og fóru inn í hálfleik með 6 stiga forskot, 42-36. Okkar stelpur komu ekki alveg nógu tilbúnar í seinni hálfleik og náðu KR mest 12 stiga forskoti um miðbik þriðja leikhluta og fóru inn í fjórða leikhluta með 8 stiga forskot. Okkar stelpur komu hins vega tilbúnar í síðasta leikhlutann staðráðnar í að gera allt til þess að sigra. Þegar um mínúta lifði leiks var munurinn kominn í 4 stig og FSu fékk tvö vítaskot sem fóru því miður ekki ofan í. Stelpurnar lögðu allt í sölurnar en urðu að lokum að sætta sig við 6 stiga tap, 65-71, gegn sterku liði KR.

Stigaskor FSu: Perla 24 stig, Emma Hrönn 11 stig, Gígja Marín 10 stig, Dagrún 9 stig, Helga Sóley 6 stig, Hrafnhildur 3 stig og Una Bóel 2 stig.