Arnór Bjarki Eyþórsson hefur samið við Toledo University í Ohio og mun hefja þar nám og spila körfubolta á næsta skólaári, 2021-22. Skólaliðið, Toledo Rockets,  leikur í 1. deild NCAA, háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Tod Kowalczyk, aðalþjálfari Rockets, segir í frétt á síðu skólaliðsins um Arnór Bjarka að hann sé áhugavert efni sem hann sé spenntur að fá til liðsins. Hann sé hávaxinn og skjóti boltanum vel af þriggja stiga færi, en tekur fram að auðvitað þurfi hann sinn tíma til að aðlagast bandarískum leikstíl.

Selfoss-Karfa er gríðarlega stolt af „sínum manni“, sem kemur úr yngriflokkastarfi félagsins, og hefur tekið miklum framförum síðustu tvö árin undir stjórn Chris Caird sem hefur líka hjálpað honum að komast í samband við þjálfara þar vestra. Arnór hefur sannarlega unnið fyrir þessu tækifæri undanfarin ár með dugnaði og staðfestu við æfingar, auk þess að þjálfa yngstu aldurshópana hjá félaginu. Hann er því ómetanleg fyrirmynd fyrir körfuboltakrakka sem stefna hátt og hafa það beinlínis fyrir augum sér dagsdaglega að leiðin frá Selfossi og út í heim er hvorki ófær né óendanlega löng. Til hamingju Arnór Bjarki!

 

Tengill á frétt Toledo Rockets

Facebooksíða Toledo Rockets