Árskort á heimaleiki Selfoss í 1. deild karla eru nú tilbúin og verða til sölu í „sjoppunni“ á leikjum í Gjánni, heimavelli liðsins. Kortin gilda á alla deildarleikina en undanskildir eru leikir í bikarkeppni, þar sem heimalið og gestalið skipta með sér innkomunni.
Kortið gildir fyrir einn á 13 heimaleiki og kosta 15.000 krónur, sem gerir rúmar 1.100 krónur á hvern leik. Kortinu fylgir að auki kaffisopi.
Sala árskorta er að auki mikilvæg, því hver króna í kassann skiptir máli á „þessum síðustu og verstu tímum.“
Fyrsti heimaleikur Selfoss er handan við hornið, en nágrannar okkar og vinir í Umf. Hrunamanna koma í heimsókn nk. föstudagskvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og styðja liðið.
ÁFRAM SELFOSS!!!