Selfossliðið heimsótti Hamar í Frystikistuna í 1. deild karla í gærkvöldi. Þetta var baráttuleikur, eins og að líkum lætur þegar þessi nágrannalið mætast, en Selfoss hafði yfirhöndina lengst af í leiknum og vann að lokum, með barningi, 13 stiga sigur, 81-94.
Selfoss byrjaði heldur betur og leiddi fyrstu mínúturnar með litlum mun, 3-5 stigum. Hamar komst yfir 18-17 eftir 9 mínútna leik og leiddi naumlega fram undir miðjan annan leikhluta, þegar Selfoss komst aftur yfir, 27-29, og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Í öðrum leikhluta varð munurinn mestur 12 stig og staðan í hálfleik 38-50. Hamarsliðið byrjaði seinni hálfleikinn á 9-1 kafla og minnkaði muninn í 4 stig, 47-51. Þá náðu okkar menn vopnum sínum og leiddu með 19 stiga mun, 58-77, þegar þriðja leikhluta lauk. Hamarsmenn bitu enn í skjaldarrendur, komu virkilega grimmir inn í fjórða hluta og söxuðu forskot Selfoss niður í 6 stig þegar verst lét, 72-78. Nær komust þeir þó ekki, Selfossliðið stóðst áhlaupið og vann kærkominn sigur.
Með sigrinum jafnaði Selfossliðið Sindra í 5. sæti deildarinnar, bæði lið hafa unnið 11 leiki. Sindri stendur þó betur að vígi, hefur unnið okkur tvisvar og á leik til góða, hefur tapað einum leik færra en Selfoss (sigurleikur Sindra gegn Fjölni er ekki kominn inn í tölfræðiskráningarkerfið á kki.is). Heimaleikur gegn Sindra þann 7. mars næstkomandi verður því allmikilvægur leikur í baráttu þessara félaga um sæti í úrslitakeppninni. Fleiri hindranir eru auðvitað á þeirri leið, en Selfoss á nú 6 leiki eftir í deildarkeppninni, gegn Fjölni úti, Sindra heima, Haukum heima og Álftanesi heima, en þessi lið eru öll ofar í töflunni. Svo bíða Hrunamenn og Skallagrímur gráir fyrir járnum á heimavöllum sínum að jafna um okkar menn, en Selfoss tapaði fyrir báðum þessum liðum á útivelli en vann þau heima.
En aftur að leiknum í gær. Dareial Franklin var atkvæðamestur Hamarsmanna með 28 stig og 7 fráköst, 20 framlagspunkta. Björn Ásgeir (heitir Kristinn Ólafsson á tölfræðiskýrslunni) átti góðan leik, setti 18 stig og tók 6 fráköst, skilaði 17 framlagspunktum. Alfonso Birgir Söruson Gomez skoraði 8 stig og 5 tók fráköst, Daði Berg 7 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst, Maciek skoraði 7 stig, Haukur Davíðsson 5 og þeir Benóný Svanur Sigurðsson og Daníel Sigmar 4 stig hvor.
Trevon Evans fór fyrir Selfossliðinu með 26 stig, 5 stoðsendingar, 5 stolna og 11 fráköst, og framlagstölurnar hefðu sannarlega orðið glæsilegar ef ekki hefðu tapaðir boltar sett þar smá strik í reikninginn. Gerald Robinson sýnir leik eftir leik að menn þurfa ekki að vera dauðir úr öllum æðum þó 37 ára séu. Hann skoraði 23 stig og tók 11 fráköst, fiskaði 10 villur og var hæstur í +/- með +23, en vill örugglega gleyma sem fyrst frammistöðunni á vítalínunni (7/17!). Gasper hafði óvenjuhægt um sig fyrir utan þriggjastigalínuna en skoraði 13 stig og tók 9 fráköst. Vito átti góðan dag með 16 stig, skaut boltanum 62%.
Fimmtán og sextán ára strákarnir okkar, Birkir Hrafn og Styrmir eru með raðir af 100% tölum á tölfræðiskýrslunni. Þeir skoruðu saman þau 13 stig sem skildi milli liðanna í leikslok, Birkir með 7 stig á tæpum 6 mínútum og klikkaði ekki úr skoti, og sömu sögu má segja um Styrmi sem spilaði tæpar 10 mínútur og setti tvo þrista úr tveimur tilraunum, 6 stig frá honum.
Ísar Freyr og Sigmar Jóhann höfðu sig lítt í frammi í sóknarleiknum, reyndu saman 3 skot utan af velli á 26 mínútum spiluðum. En ekki geta allir skotið á körfuna í sífellu og þessir piltar skila sannarlega sínu í varnarleiknum.
Þegar rýnt er nánar í tölfræðina má segja að það sé undarlegt að lið vinni leik með 19 tapaða bolta og 15 vítaskot í súginn (23/38; 61%) En það helgast af því að Hamar var á svipuðu róli, með 16 tapaða og 57% (13/23) vítanýtingu. Í heildina var skotnýting Selfossliðsins betri og það réði úrslitum að þessu sinni.
ÁFRAM SELFOSS!!!