Selfoss skrapp austur í Hornafjörð í gær til að etja kappi við Sindra í 1. deild karla. Sindri er eitt af fjórum bestu liðunum í deildinni, eftir að Skallgrímur hefur klifið hratt á brattann undanfarið og slitið sig frá liðunum í þéttum „pakka“ í 5. – 9. sæti og gert sig líklegan til að skáka Sindra í 3. sætinu.  Selfossliðið er nú í 6. sæti, eftir að hafa lengi framan af móti vermt það fjórða, 10 stigum á eftir Hornfirðingum og 8 neðan við Borgnesinga. Fjölnir er nú í 5. sætinu, síðasta sæti inn í úrslitakeppni, tveimur stigum ofan við Selfoss og á að auki betri innbyrðis stöðu á okkur, þannig að ekki dugar að jafna við Grafarvogsliðið til að tryggja úrslitasætið.

Á þessu ölllu eru eðlilegar skýringar. Flest liðin hafa bætt við sig mannskap til að styrkja stöðu sína á meðan Selfoss tók þá ákvörðun að skera niður aðföngin og treysta á ungviðið. Á sama tíma er gaman að fara í „ef og kannski“ leikinn: Hvað ef við hefðum, svo dæmi séu tekin, klárað leiki gegn Fjölni, Skallagrími og ÍA heima, sem töpuðust naumlega í lokin? En slíkt er bara í gamni sagt, við erum á áætlun með okkar markmið, og þau snúast ekki um að keppast við að fara upp í Subwaydeildina að svo stöddu. Að því kemur síðar. Innan skamms. Þjálfarinn hefur ekki verið öfundsverður af því að púsla saman nýju liði á hverju hausti frá því hann kom til starfa. Nú hillir undir að breyting verði þar á og hægt verði strax næsta haust að byggja á grunni sem verið er að leggja þessi misserin.

Það er athyglisvert að skoða leikupplýsingarnar á kki.is. Þar kemur fram að Selfoss vann fyrsta leikhluta með 8 stigum en allir hinir þrír voru hnífjafnir! Úrslitin 81 – 89 og sérstaklega ánægjulegt að verða vitni að því að liðinu okkar brást nú ekki örendið á jöfnum lokamínútum, eins og stundum áður. Annað er að Selfoss fékk nú 38 stig „af bekknum“, 12 stigum meira en heimaliðið, sem er óvenjulegt, en helgast af því að byrjunarliðið var ólíkt venju. Þriðja atriðið sem fangar augað á þessari síður er að Sindri komst aldrei yfir í leiknum.

Þegar tölfræði leikmanna er skoðuð sést að tveir menn héldu uppi sóknarleik Sindra. Tyler Stewart var atkvæðamestur með 30 stig, 11 fráköst og 39 frl. Leikstjórnandinn knái, Oscar Jörgensen, skoraði 24 stig og nýtti skot sín fáránlega vel, en tapaði 6 boltum og frl. því 14. Ismael Gonzalez skoraði 3 stig en gaf 12 stoðsendingar og skilaði 12 frl. Þessir þrír náðu einir tveggjastafatölu í frl. Rimantas Daunys skoraði 9 og tók 9 fráköst, Guillermo Daza og Embrima Demba skoruðu 6 stig hvor og Tómas Orri Hjálmarsson skilaði 3 stigum og 5 fráköstum.

Allir 9 leikmenn Selfoss komu inn á, og þó Fróði hafi ekki fengið tækifæri til að gera einhverjar rósir, þá mun hans tími koma, fyrr en marga grunar. Fjórir leikmenn Selfoss náðu tveggjastafatölu í frl.  Gerald náði sér vel á strik gegn sínu fyrra liði og var atkvæðamestur, 29 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar og 27 frl. Kennedy kom honum fast á hæla með 26 stig, 7 fráköst, 41% þriggjastiganýtingu og 24 frl. Ísak var mjög góður eins og oft áður, enn ein tvöfalda tvennan með 16 stigum, 11 stoðsendingum, 4 fráköstum og 22 frl. undirstrika afbragðsleik. Og Ísar Freyr gerði líka mjög vel á mörgum sviðum: 2 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 11 frl. Birkir Hrafn skoraði 7 stig og tók 3 fráköst og þeir Sigmar og Styrmir gerðu sitt þó ekki hafi þeir sett boltann í körfuna að þessu sinni.

Af samanburði má sjá að leikmenn Sindra hittu betur en Selfoss var betra liðið í fráköstum, töpuðum og stolnum boltum.

Það er spennandi að sjá hvernig næstu leikir þróast. Fjórir eru eftir: Þór Ak. heima, Hamar og Skallagrímur úti og Ármann heima. Það er raunhæft að reikna með tveimur sigrum, gegn Þór og Ármanni, þó aldrei sé gengið að neinu vísu í þessum bransa, og annar eða báðir gætu eins vel tapast, og strákarnir gætu svo sem líka tekið upp á því að vinna annan eða báða af hinum tveimur!

Næsti leikur er sem sagt handan við hornið, heima í Gjánni næstkomandi mánudag.

Selfoss – Þór Ak. mán 6. mars kl. 19:15

Tölfræðin

Staðan

ÁFRAM SELFOSS!!!