Það var allur annar bragur á Selfossliðinu í gærkvöldi en í undanförnum leikjum. Það sigldi seglum þöndum allan tímann en lenti ekki, eins og oft áður, uppi á skeri í hafnleysum þegar nálgaðist land. Ástundaður var sá „liðsbolti“ sem leitað hefur verið að í allan vetur og fyrir vikið fengu margir að taka á árum og hagræða seglum. Vestri átti ekki svör við þessu og mátti sætta sig við 12 stiga tap, 104-92, í skemmtilegum leik.
Leikurinn var jafn og lengi var ekki útséð um úrslit. Vestri hafði undirtökin framan af og leiddi mest með 8 stigum uppúr miðjum fyrsta leikhluta. Það var ekki fyrr en á 18. mínútu sem Selfoss komst yfir í fyrsta skipti og lét forystuna ekki af hendi eftirleiðis; var munurinn þó innan við 10 stig fram í miðjan síðasta leikhluta, en þá stóð 88-75. Vestri minnkaði það í 7 stig en komst ekki nær og Selfoss jók muninn aftur í blálokin.
Þetta var mikill sigur og léttir fyrir okkar ungu stráka, sem unnið hafa eins og skepnur í allan vetur að háleitum markmiðum sínum. Nú fundu þeir leiðina, létu boltann ganga hratt og fumlaust manna á milli og sköpuðu sér ótal góð skotfæri, auk þess að opna betur með þessum hætti vörnina og nýta í kjölfarið greiðari leiðir til að keyra með boltann upp að körfunni, í stað þess að hnoðast með hann í þvögu og missa út úr höndunum, eins og stundum hefur verið lenskan hingað til. Ef liðið „tekur þennan lærdóm út úr leiknum“, eins og sagt er nútildags, er „fyrir stafni haf og himinninn“ til að kanna „hvað er bak við yztu sjónarrönd“.
Vestri lék á sínar nótur strax frá upphafi; dældi boltanum inn í teig á Nemanja Knezevic sem var þar eins og kóngur í ríki sínu, skoraði að vild og tíndi villur á hávaxnari strákana okkar. Að auki var Bosley allheitur í byrjun og sallaði niður einhverjum skotum fyrir utan. Það tók sinn tíma fyrir Selfossliðið að setja fyrir lekann, og þó aldrei verði þaggað alveg niður í Nemanja tókst að hægja verulega á honum og halda Marko Dmitrovic, sem fór illa með okkur fyrir vestan, að mestu á mottunni. Nemanja skoraði 22 stig og tók „aðeins“ 11 fráköst en var framlagshæstur Vestramanna. Bosley skoraði 21 stig, tók 9 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og fiskaði 9 villur. Gabriel Adersteg skoraði 17 og Marko kom þar á eftir með 12 stig. Meira framlag vantaði frá hinum ungu drengjum í Vestraliðinu til að eygja sigurvon.
Selfossliðið vann þetta á breiddinni, má segja. Hvorki fleiri né færri en sex leikmenn skiluðu „tveggja stafa tölu“ í stigaskori. Þá er athyglisvert að sjá á tölfræðiskýrslunni 23 stoðsendingar og 9 tapaða bolta, sem er alveg himnasending, miðað við síðustu leiki.
Að öðrum ólöstuðum var Kristijan Vladovic kóngurinn. Hann stjórnaði liðinu nú frábærlega og varnarleikurinn til fyrirmyndar eins og alla daga. Kristijan skoraði 21 stig og skotnýtingin var ævintýraleg; 3/3 í tveggja stiga og 5/7 í þristum. Og klykkti svo út með vel hagstæðu hlutfalli Sto/TB.
Hinn 18 ára Kennedy Clement, sem er nýkominn úr hlýjunni suður í Evrópu, sýndi nú við hverju má búast frá honum í framtíðinni. Strákurinn skoraði 16 stig í öllum regnbogans litum, hirti hvorki fleiri né færri en 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, var framlagshæstur Selfyssinga með 31 og +/-20.
Terrance Motley var góður með 19 stig og 10 fráköst og Sveinn Búi sömuleiðis með 16 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar, en einnig 9 fiskaðar villur sem kom sér vel á lokakaflanum í bónus. Sveinn nýtti þá vítin af öryggi. Arnór Bjarki átt skínandi leik, skoraði 13 stig, Aljaz skoraði 10 og Gunnar Steinþórsson leysti af við leikstjórnina alveg glimrandi vel, skoraði 6 stig. Svavar Ingi skilaði mikilvægum mínútum í miðherjastöðunni gegn sterkasta vopni gestanna og Sigmar Jóhann gerði vel þær mínútur sem hann fékk.
Það er sem sagt allt upp á við í augnablikinu. Ekki þýðir þó að leggjast á bakið og japla á árnaðaróskum. Það er harður vetur framundan og eins gott að snúa bökum saman, bíta í skjaldarrendur og láta hvergi deigan síga, því ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið.
Næst er erfiður útileikur í Hornafirði. Sindri vann toppliðin eitt af öðru, eftir að liggja í valnum gegn okkur í Gjánni, og lenti ekki aftur á jörðinni fyrr en í gær gegn Hrunamönnum á Flúðum. Sindri er erfiður heim að sækja og eins gott að girða sig í brók fyrir þá viðureign næstkomandi föstudag.