Eftir að hafa leikið með Selfoss á seinasta tímabili við góðan orðstír á venslasamning hefur Bergvin Stefánsson tekið skrefið að fullu og skrifað undir leikmannasamning við Selfoss. Bergvin kemur frá Njarðvík.
Bergvin er góð viðbót í ungan leikmannahóp Selfoss en hann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og lék núna í sumar með U20 landsliðinu á Evrópumótinu.
Aðspurður hafði Chris Caird þjálfari þetta að segja um Bergvin: „Bergvin er langur strákur og mikill íþróttamaður sem leggur allt undir þegar hann stígur á gólfið. Hann mun hjálpa okkur í framlínunni varnarlega í frákastabaráttunni og með vörðum skotum. Þetta ár mun jafnframt nýtast fyrir Bergvin til að þróa sóknarleik sinn enn frekar og bæta í vopnabúrið.
Á síðasta vetri sýndi hann okkur að við getum gert miklar kröfur til hans og hann tekur leiðsögn vel. Ég hlakka til að sjá framvinduna í vetur.“
Við hjá Selfoss Körfu erum stolt af því hversu margir ungir leikmenn hafa ákveðið að taka slaginn í vetur og það rímar vel við markmið félagsins að gefa ungum leikmönnum tækifæri og aðstöðu til að þróa leik sinn áfram.