Því miður náði Selfossliðið ekki að fylgja eftir ágætum leik í heimasigri gegn Sindra sl. föstudagskvöld þegar haldið var í Borgarnes í gær. Leikmenn voru of mikið að reyna sjálfir í sókninni en samvinna af skornum skammti og því farnar margar árangurslausar, einmana „skógarferðir“ . Lið sem ekki er með innan sinna raða leikmenn sem geta unnið leiki á eigin spýtur er dæmt til afhroðs ef ekki allir vinna saman eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi og eru jafnframt á sömu blaðsíðunni hverju sinni.

Eftir 4 mínútur stóð 10-10 en þá skildu leiðir og Skallagrímur tók öll völd, smá jók forskotið og náði mest 30 stiga forystu, 79-49, þegar 5 mínútur voru eftir. Jafnvægi var ruslamínúturnar og lokatölur 88-64.

Andstætt við Selfossliðið spilaði Skallagrímur fínan liðsbolta, ágætt flæði var í sókninni, menn voru ósparir á  aukasendingarnar og fyrir vikið nóg af fríum skotum. Liðið var enda með 41% þriggjastiganýtingu, sem er víst alveg þokkalegt!! Allir settu niður þristana.

Nebosja var bestur Fjósamanna og hefur löngum reynst Selfyssingum erfiður ljár í þúfu. Kallinn var með 23 stig, 8 fráköst, 8 stoðsendingar, alveg fáránlega skotnýtingu og 34 framlagsstig. Fjórir aðrir náðu tveggja stafa tölu í stigaskori og fínt jafnvægi í liðinu.

Selfoss náði smá glætu í seinni hálfleik og setti heimamenn úr jafnvægi um stund með svæðisvörn en náði ekki að fylgja því eftir á hinum vallarhelmingnum.

Þriggjastiganýting Selfossliðsins var 25% og vítanýtingin 52%, sem er ekki til útflutnings. Ekki er ástæða til að tína til einstaka leikmenn Selfoss, það skiptir ekki máli hvað hver og einn gerði, því LIÐIÐ gerði ekki nóg. Samanburður á liðsframlagi segir alla söguna: 113-64 fyrir heimamenn, sem voru grimmari, samheldnari og með alla stemmningu sín megin.

Selfossliðið getur betur en þetta og eins gott að það læri sína lexíu af þessum tveimur leikjum sem liðið lék á síðustu 4 dögum: Hún er þessi: Sameinaðir stöndum vér – sundraðir föllum vér.

ÁFRAM SELFOSS!!!