Einbeitingarleysi í þriðja leikhluta kostaði Selfossliðið sigurinn gegn Fjölni í gærkvöldi, í síðasta leiknum fyrir jólafrí. Selfoss leiddi í hálfleik, 44-41, en 9 stig gegn 26 í þriðja var of mikil gjá að brúa og þrátt fyrir góða tilburði og 28 stig gegn 18 í lokafjórðungnum dugði það ekki til og Fjölnir slapp með sigur, 81-85.
Leikurinn var jafn frá upphafi, Fjölnir þó fetinu á undan og leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta fjórðung, 21-23. Selfoss jafnaði í 38-38 eftir 18 mínútur og leiddi í hálfleik eins og fyrr segir. Þegar 6 mínútur voru liðnar af þriðja fjórðung voru heimamenn enn yfir, 49-48, en síðustu 4 mínúturnar fór einbeiting okkar manna veg allrar veraldar, bæði í sókn og vörn, og Fjölnisliðið refsaði grimmilega, skoraði 19 gegn 4 stigum Selfyssinga og leiddi allt í einu með 14 stigum, 53-67. Þær tíu mínútur sem eftir lifðu sýndi Selfossliðið góðan karakter, komst næst í tveggja stiga mun þegar lítið var eftir, og freistaði þess að brjóta á andstæðingunum til að fá tækifæri til að jafna eða vinna með þriggjastigakörfu, en sú áætlun gekk ekki upp því Fjölnismenn voru sallarólegir og „kláruðu dæmið“ bara á vítalínunni.
Hjá Fjölni var Róbert Sigurðsson bestur, skoraði 19 stig og hitti vel, 5/8 úr þristum og tók að auki 10 fráköst. Anton Grady var líka erfiður ljár í þúfu, skoraði 19 stig, tók 15 fráköst, varði a.m.k. 3 skot en gerði okkar mönnum ekki síst ógagn með því að hindra þá í að ná góðum skotum í teignum. Vilhjálmur Theodór var einnig góður, skoraði 14 stig og setti m.a. 2 þrista á versta tíma. Sama má segja um Davíð Guðmundsson sem þurfti endilega að hitta úr 2 þristum þegar síst skyldi. Srdan Stojanovic skoraði 13 stig á aðeins 21 mínútu, Egill Agnar Októsson og Rafn Kristján skoruðu 5 stig og þeir Sigmar Bjarnason og Andrés Kristleifsson 2 stig hvor.
Snjólfur Marel, Ari og Mike leiddu Selfossliðið í stigaskori og framlagi. Snjólfur skoraði 20 stig og tók 5 fráköst, Ari 17 stig og 7 fráköst, Mike 16 stig, 3 frk. og 4 sts. Arminas skoraði 13 stig, Chris 4, Adam Smári, Svavar Ingi og Hlynur Freyr 3 stig hver og Björn Ásgeir skoraði 2 stig, nýtti einu skottilraun sína og gaf flestar stoðsendingar, 5 talsins.
Við tölfræðisamanburðinn kemur í ljós að Fjölnisliðið var með yfirburði í fráköstum, 50-28, og þriggjastiganýtingu, 45% – 33% en Selfossliðið gerði vel í því varnarlega að pressa fram 15 tapaða bolta Fjölnismanna á móti aðeins 6 töpuðum úr eigin ranni.
Þetta var enn einn leikurinn sem tapast með litlum mun og rekja má til einbeitingarleysis, „slæmi kaflinn“ margfrægi hefur loðað um of við liðið og er það verkefni félagsins yfir hátíðirnar að bæta úr því og tryggja meiri stöðugleika í seinni hluta mótsins.
ÁFRAM SELFOSS!!!