Síðasti opinberi leikur Selfossliða á þessu ári fór fram í kvöld á Akranesi í 1. deild karla. Skagamenn hafa verið að sækja í sig veðrið undanfarið, styrkt leikmannahópinn og unnið góða sigra, á meðan leikmannahópur okkar hefur „þynnst“ jafnt og þétt eftir því sem á líður haustið. Búið er að flysja utan af áhugalitla aðkomumenn sem áttu að bera liðið, en eftir stendur traustur kjarni með einum reyndum hálfatvinnumanni og ungum strákum með hjartað á réttum stað. Sérlega ánægjulegt var að sjá í Selfossbúningnum í kvöld fjóra 11. flokks stráka, 16 ára peyja, úr afburða uppeldisstarfi Karls Ágústs Hannibalssonar, og þeim mun fara fjölgandi næstu misserin. Hvað getur verið skemmtilegra eða meira gefandi en að sjá blómin í garðinum spretta og blómstra – að ekki sé talað um í frosti og hríð eins og í kvöld?

En að leiknum, sem fór afar rólega af stað. Eftir 3 mínútur stóð 0-3 og heimamenn skoruðu ekki fyrr en 4 mín. voru liðnar. Jafnt var 9-9 en þá sigu Skagamenn framúr og voru yfir eftir 10 mín, 25-20. Selfoss jafnaði 29-29 fyrir miðjan annan hluta og tók í kjölfarið forystuna, og leiddi eftir það allt til loka. Vörnin þéttist og Skagamenn skoruðu bara 12 stig í öðrum hluta og 13 í þeim þriðja, þannig að okkar menn leiddu með 13 stigum fyrir lokatörnina, 50-63. Heimamenn bitu í skjaldarrendur og minnkuðu muninn í 5 stig þegar þrjár mínútur voru eftir, 68-73, en Gerald skoraði þá tvær körfur í röð sem fóru langt með að tryggja sigurinn, þó ÍA næði að skera það aftur niður í „tveggja körfu leik“ þegar um mínúta var eftir. Selfyssingar voru hinsvegar nógu sterkir á svellinu þegar á vítaskotin reyndi í lokin og Ísak Júlíus skoraði m.a. úr 4 í röð, lokatölur 79-86.

Þetta var afar mikilvægur sigur fyrir strákana okkar og ætti að efla sjálfstraustið. Þeir eru nógu góðir til að standa sig og þurfa ekki á liðsinni fjölda atvinnumanna að halda til að vinna leiki. Nú er Selfossliðið í 4. sæti, og einungis einum sigurleik á eftir Sindra í þriðja sætinu. Í hæla okkar narta svo Skallagrímur og Hrunamenn einum sigurleik á eftir og Ármann, ÍA og Fjölnir tveimur sigurleikjum þar á eftir. Þannig að deildin er afar jöfn og spennandi, sérstaklega baráttan um sæti í úrslitakeppninni.

Skagamenn eru að ná vopnum sínum aftur, eftir nokkur erfið ár. Þeir tefla fram hvorki fleiri né færri en 6 efnilegum 16 og 17 ára gömlum strákum sem eiga eftir að halda uppi merkinu um langa framtíð. Studdir af ágætum aðkomumönnum eiga þeir eftir að vinna fleiri leiki. Nú munaði þá verulega um að bandaríski leikmaðurinn þeirra var í banni og því fjarri góðu gamni, en bestur í kvöld var Marko Jurica  eð 33 stig og 33 framlagspunkta. Næstur kom Lucien Christofis með 15 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst, 21 í framlag, og Anders Adersteg kom þar skammt undan með 18 stig og 10 fráköst. Þórður Freyr setti 8 stig en aðrir minna.

Gerald „gamli“ Robinson fór fyrir Selfossliðinu með 31 stig og 18 fráköst, glæsilega skotnýtingu og 42 framlagspunkta. Kennedy (20 ára) skoraði 15 stig og tók 9 fráköst, Ísak Júlíus (19 ára) 14 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar, Ísar Freyr (20 ára) 10 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar, Styrmir (17 ára) skoraði 8 stig og tók 5 fráköst, og átti sinn besta leik í vetur, spilaði frábæra vörn og gerði margt vel í sóknarleiknum. Birkir Hrafn (16 ára)  skoraði 5 stig og gaf 4 stoðsendingar og Arnaldur (20 ára) 3 stig og tók 5 fráköst. Tristan Máni Morthens (16 ára) kom inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik, og þó það hafi ekki verið „föstudagurinn langi“ til að gera einhverjar rósir að þessu sinni, þá sýndi hann þor og áræði þennan stutta tíma, og vitið til: þeir eiga eftir að gera það gott, strákarnir, þó síðar verði.

Sé rýnt í tölfræðiskýrsluna er að sjá nokkur forvitnileg atriði. 1) Skagamenn tóku 23 fleiri skot í leiknum, þar af 22 fleiri 2jastiga skot! 2) Selfoss nýtti 2jastigaskotin mun betur. Vítanýting Selfossliðsins var 17% betri. 3) Selfoss tók 13 fleiri fráköst. 4) Selfoss tapaði 20 boltum!!! gegn 8. 5) ÍA stal 15 boltum en Selfoss bara 1!!! Segja má að það sé með nokkrum ólíkindum að vinna leik með því að taka 23 færri skot á körfuna. En svona er boltinn. Hann lýgur ekki!

Það verður gaman að fylgjast með framþróun þessa unga liðs til vorsins og vexti einstakra leikmanna. Það eru spennandi tímar framundan. Og vel að merkja: Árangur snýst ekki einungis um að vinna leiki. Það er mikilsverður árangur ef ungir leikmenn bæta sig og vaxa upp úr því að vera efnilegir í að vera góðir. Það er markverður árangur, sem við metum mikils, þó aðrir kunni að hlæja að slíkum „órum“ í hlaðvörpum.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni