Það blés ekki byrlega fyrir Selfossliðinu í upphafi leiks á Flúðum í kvöld og liðið mátti alls ekki við því að lenda 17 stigum undir eftir fyrsta leikhluta. Þó Selfossstrákarnir hefðu 3 stigum betur þær 30 mínútur sem eftir lifðu leiksins dugði það skammt og Hrunamenn fögnuðu verðskulduðum sigri í upphafsleik liðanna í 1. deild.
Það má segja að þetta hafi verið fyrsti æfingaleikur Selfossliðsins í haust. Eftir lygilegar tafir á leikheimild eina atvinnumanns liðsins, hóf hann vikulangt æfingatímabil sitt hér á landi á meiðslum, og náði tveimur hálfum æfingum fyrir þennan fyrsta leik, sem var því miður líka fyrsti leikurinn á Íslandsmótinu. Hann var því að vonum ekki upp á sitt besta, og verður að gera ráð fyrir því að úr rætist hratt og vel.
Ekki bætti úr skák að Kristijan Vladovic, hinn tvítugi aðalleikstjórnandi Selfoss, er meiddur og óleikfær. Hvorugur meginpósturinn því til stórræðanna og munar um minna fyrir ungt og reynslulítið lið.
Eins og fyrr segir unnu Hrunamenn leikinn í fyrsta leikhluta. Þó Selfoss næði að minnka muninn, sem mestur varð 21 stig, niður í 10 stig í tvígang í seinni hálfleik, þá settu heimamenn niður erfið skot og brutu niður áhlaupin, en lokatölur urðu 95-81, eða 14 stiga tap. Tölfræði liðanna var í þokkalegu jafnvægi, nema hvað 20 tapaðir boltar reyndust Selfossliðinu dýrkeyptir.
Þar sem helst skildi á milli var Corey Taite, hinn bandaríski bakvörður Hrunamanna, sem skoraði 42 stig, bjó til önnur 25 eða svo með 10 stoðsendingum og tók 6 fráköst; 45 framlagsstig, takk fyrir túkall! Perkovic gerði einnig vel með 12 stigum og 14 fráköstum, og Orri Ellertsson stimplaði sig rækilega inn með 15 stigum og afbragðsnýtingu. Karlo Lebo skilaði svo 11 stigum og Eyþór Orri og Ísak minntu á sig með 5 fráköstum hvor.
En að okkar mönnum. Gunnar Steinþórsson, 18 ára piltur, þurfti í stóra skó að fara í fjarveru Kristijans, og taka að sér að leiða liðið. Hann stóð heldur betur undir vonum með 15 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar en aðeins 1 tapaðan bolta, og var framlagshæstur Selfyssinga með 15 punkta, ásamt Arnóri Bjarka, sem einnig átti fínan dag, 12 stig, 67% skotnýting, 3 fráköst, 2 varin skot og 2 stoðsendingar. Aljaz Vidmar skilaði góðu framlagi af bekknum, 13 stigum og 5 fráköstum, og 100% nýtingu innan teigs. Þá stóð Sigmar Jóhann sannarlega fyrir sínu og Sveinn Búi skoraði 9 stig og tók 6 fráköst. Darryl var með tvöfalda tvennu, 14 stig og 11 fráköst og bætti við 2 vörðum skotum, en eins og fram hefur komið þarf hann tíma til koma sér í stand. Allir 12 komu við sögu og 10 settu stig á töfluna.
Niðurstaðan er, eins og fyrir lá, að liðið er ekki tilbúið eftir brösótt undirbúningstímabil og verður að læra hratt fram að næsta leik. Næst eru 2 leikir í unglingaflokki áður en tekist verður á við hið ógnarsterka lið Álftaness í bikarnum þann 13. október nk.