Lög Körfuknattleiksfélags Selfoss
1. gr.
Félagið heitir Körfuknattleiksfélag Selfoss, skammstafað SELFOSS-KARFA. Heimili og varnarþing er í íþróttahúsi Vallaskóla, Selfossi.
2. gr.
Félagið er myndað af einstaklingum samkvæmt félagaskrá.
3. gr.
Markmið félagsins er að veita iðkendum körfubolta í Árborg tækifæri til að stunda íþrótt sína og ennfremur að gefa þeim möguleika á að keppa á viðurkenndum mótum innan íþróttahreyfingarinnar. Einnig að starfrækja körfuboltaakademíu í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands og, eftir atvikum, nágrannafélögin í Árnessýslu.
4. gr.
Málefnum félagsins stjórna
- Aðalfundur
- Stjórn
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
5. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur er öllum opinn. Aðalfund skal halda ekki síðar en í apríl ár hvert. Boða skal til fundar með minnst 14 daga fyrirvara, með auglýsingu á opinberum vettvangi. Í auglýsingu skal dagskrá fundarins koma fram. Fundurinn er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað. Atkvæðisrétt og kjörgengi hafa eingöngu skráðir félagar 16 ára á árinu og eldri.
6. gr.
Á aðalfundinum, sem og öðrum fundum, hefur hver félagsmaður eitt atkvæði, þar sem hreinn meirihluti ræður ákvörðunum. Einungis má breyta lögum þessum ef 2/3 fundarmanna á aðalfundi samþykkja það. Auglýsa skal lagabreytingar í fundarboði til aðalfundar.
7. gr.
Félagsfundi má halda eins oft og nauðsyn krefur skv. ákvörðun stjórnar eða ef 15% félaga óska þess. Til félagsfundar skal boða með viku fyrirvara. Ekki má gera lagabreytingar á félagsfundum.
8. gr.
Dagskrá aðalfundar.
1. Formaður setur fund.
2. Kosinn fundarstjóri.
3. Kosinn fundarritari.
4. Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.
5. Formaður leggur fram skýrslu félagsins.
6. Gjaldkeri leggur fram og útskýrir skoðaða reikninga, sem síðan eru bornir undir atkvæði.
7. Lagabreytingar.
8. Kosning stjórnar
a. Kosning formanns
b. Kosning sex annarra stjórnarmanna.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna.
10. Gjaldkeri leggur fram drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta rekstrarár.
11. Önnur mál.
9. gr.
Stjórn félagsins er skipuð 7 einstaklingum, formanni, gjaldkera, ritara og fjórum meðstjórnendum. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar. Aldrei skulu fleiri en fjórir ganga úr stjórn í einu. Stjórn er æðsti aðili félagsins milli aðalfunda. Stjórn skal sjá til þess að starfandi séu meistaraflokksráð, akademíuráð og yngriflokkaráð. Meistaraflokksráð heldur utan um starf meistaraflokka félagsins í samstarfi við stjórn. Akademíuráð heldur utan um starf körfuboltaakademíu félagsins í samráði við stjórn. Yngriflokkaráð hefur umsjón með yngriflokkastarfinu og ber ábyrgð á því að foreldraráð starfi fyrir hvern keppnishóp.
10. gr.
Tillögu um að leggja félagið niður má aðeins taka fyrir á aðalfundi og þarf minnst ¾ hluta atkvæða til samþykktar. Eignir félagsins skulu þá renna til Sveitarfélagsins Árborgar. Auglýsa skal tillögu til félagsslita í fundarboði.
11. gr.
Um þau atriði sem ekki eru tekin fram í lögum þessum gilda ákvæði í lögum ÍSÍ, UMFÍ og HSK (eins og við á).
Þannig samþykkt á aðalfundi 5. apríl 2018.