Yngri flokkaliðin okkar halda áfram aðgera það gott. Undanfarna viku hafa liðin unnið 6 leiki en tapað engum. Þegar hefur verið sagt frá sigurleik 12. flokks drengja gegn Skallagrími og verður það ekki endurtekið. En fimm leikir til viðbótar hafa verið spilaðir sem ekki hefur enn verið greint frá og bætt úr því hér með.
Ungmennaflokkur renndi til Þorlákshafnar og mætti þar sameinuðu liði nágranna okkar í Þór og Hamri. Leikurinn var hraður og skemmtilegur, enda toppmenn í báðum liðum. Selfoss hafði betur, 91 – 97, þrátt fyrir að hitta ekki vel fyrir utan, heldur spilaði góðan og árangursríkan liðsbolta. Það var heldur ekki leiðinlegt að 11. flokks strákar stóðu sig glimrandi vel í Selfossliðinu og undirstrika sífellt framfarir sínar og sterka stöðu gegn sér eldri leikmönnum. Næsti leikur ungmennaflokks er heimaleikur í Gjánni gegn Njarðvík sunnudaginn 12. mars kl. 18:00. Ungmennaflokkur er nú í 2. sæti deildarinnar með 11 sigurleiki og 4 tapaða, en Breiðablik er á toppnum með 15 sigurleiki en aðeins tapað einum.
11. flokksliðin okkar hafa bæði spilað tvo leiki síðan þeirra var getið hér á síðunni.
A-liðið mætti Stjörnunni b ansi seint sl. föstudagskvöld í Umhyggjuhöll þeirra Garðbæinga og sigraði örugglega með 10 stigum, 95-105. Tveimur dögum seinna, á sunnudaginn, var lið Þórs frá Akureyri í heimsókn í Gjánni. Selfoss vann leikinn 90-86. Næsti leikur hjá A-liðinu er gegn KR á útivelli mánudaginn 13. mars kl. 21:00. Liði er nú í 3. sæti 1. deildar, rétt á hæla Stjörnunnar og ÍR.
B-lið 11. flokks hefur einnig spilað tvo leiki nýverið. Fyrst vann liðið Stjörnuna c í Gjánni, 84-79, en það var vel gert hjá okkar mönnum, því Stjörnustrákar eru efstir í 2. deild. Nú munar bara einum leik á þessum liðum. Í dag mætti Selfoss-B síðan Ármanni í frestuðum leik á útivelli í Kennaraháskólanum. Drengirnir okkar lögðu Ármenninga með litlum mun, 82-85. Næsti leikur B-liðsins er heima í Gjánni gegn B-liði Þórs frá Akureyri sunnudaginn 12. mars kl. 16:00
Það er því sannkallaður vorilmur í lofti hjá yngriflokkaliðunum okkar, og engin ástæða til annars en að taka sigrunum fagnandi. Það sem þó er meira um vert er að leikmennirnir læra hratt, áherslurnar í þjálfuninni eru ekki að einblína á næsta leik og telja sigra, heldur að kenna þeim að spila körfubolta, auka leikskilning og undirbúa þá undir keppni í nútíma bolta á afreksstigi. Þar er allt á áætlun.
Ungmennaflokkur:
Þór/Hamar 91 – 97 Selfoss
11. flokkur
Stjarnan B 95 – 105 Selfoss A
Selfoss A 90 – 86 Þór Ak.
Selfoss B 84 – 79 Stjarnan C
Ármann 82 – 85 Selfoss B