Breiðablik, eitt af þremur toppliðum 1. deildar karla, heimsótti Selfoss í gærkvöldi í 9. umferð deildarinnar og vann öruggan 17 stiga sigur, 76-93. Blikarnir voru betri aðilinn, voru yfir og með gott forskot allan leikinn frá upphafi til loka.
Selfossliðið féll aftur í sína kunnuglegu gryfju, sem vonast hafði verið til að liðið væri búið að moka ofan í eftir tvo síðustu leiki, að mæta illa áttað til leiks. Blikar voru komnir í 0-7 áður en við var litið og eftir 7 mínútur var staðan 6-24. Sóknarleikur heimamanna var vandræðalegur, leikmenn hikandi og snauðir sjálfstrausts. Sem betur fer rjátlaðist þetta af mönnum smám saman og snemma í 2. leikhluta var forskot gestanna komið niður í 8 stig, 19-27. Munurinn hélst í kringum 10 stigin næstu mínútur en fyrir hlé hleyptu Blikar á skeið og voru 18 stigum yfir í hálfleik, 32-50.
Eftiur 7 mínútur í seinni hálfleik leit þetta orðið illa út fyrir Selfossliðið, 40-64, fátt markvert í gangi af okkar hálfu og mörgum hætt að lítast á blik(a/u)na. En þá kviknaði loks á perunni, hamskipti urðu á Cunningham sem raðaði niður körfunum, og Selfoss skoraði 11 stig í röð, 51-64. Snemma í fjórða leikhluta minnkaði Selfoss muninn í 10 stig, 57-67, og þegar þrjár mínútur lifðu leiks munaði 9 stigum, 70-79.
Nær komst Selfoss ekki og í stað þess að minnka bilið á síðustu mínútunni varð 4 stiga sveifla þegar sniðskot Selfyssinga misfórst og Blikar fengu auðvelt hraðaupphlaup, skoruðu svo 2-6 í lokin og munurinn fór upp í óþarflega háa tölu.
Breiðabliksliðið er fjári gott, þetta eru mest ungir strákar, þó sumir þeirra séu komnir með töluverða reynslu, breiddin er ágæt og hægt að keyra á 9 mönnum. Larry Thomas er þeirra besti maður og þó hann hafi skorað „aðeins“ 18 stig í gær reif hann niður 14 fráköst, skilaði 31 framlagspunkti og liðið vann með 28 stigum þegar hann var inni á vellinum. Þá er ónefnur varnarleikurinn, en hann angraði bakverði Selfossliðsins töluvert með þéttri vörn á boltann svo sóknaraðgerðir töfðust og sendigar urðu erfiðar. Hilmar Pétursson var mjög góður, stigahæstur Blika með 21 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Okkar maður, Bjarni Geir, átti fínan dag, 13 stig á tæpum 15 mínútum, Árni Elmar skoraði 14 og Sveinbjörn Jóhannesson 8, auk þess að taka 7 fráköst og standa sem klettur í teignum, snarmenni mikið og hraustur. Sama má segja um Snorra Vignis, þó skotnýtingin hafi oftast verið betri, 6 stig og 8 fráköst.
Sem fyrr leiddu Chirstian og Kristijan flokk heimamanna. Christian setti 21 stig, mest í seinni hálfleik þegar hann leiddi áhlaup sinnar sveitar, tók 14 fráköst, varði 2 skot og fiskaði 8 villur. Hann var framlagshæstur Selfyssinga með 25 punkta. Kristijan skoraði 20 og bætti við 5 fráköstum og 8 stoðsendingum. Tíu af tólf leikmönnum Selfoss settu boltann í körfuna að þessu sinni, en það vantaði þó meira framlag frá fleiri mönnum til að raunhæft væri að velgja jafn góðu liði og Breiðabliki undir uggum. Alex var þar atkvæðamestur með 8 stig, góða nýtingu, og 4 fráköst, Sigmar skoraði 7, Svavar Ingi 6 og nýtti sínar mínútur vel, Sveinn Hafsteinn og Rhys skoruðu 4 stig, Páll, Arnór Bjarki og Arnór Bjarki 2 stig hver og Bergvin tók 2 fráköst.
En þrátt fyrir allt, slæma byrjun og smá eftirgjöf í lokin sem leiddi til „óþarflega“ stórs taps, þá verður að segja liðinu til hróss að það berst af fullum krafti allan tímann og leikmenn geta fyrir vikið borðið höfuðið hátt. Margt mátti vissulega gera og ganga betur en enginn verður sakaður um að hafa ekki reynt sitt besta. Við megum vera stolt af því.
Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Snæfelli í Stykkishólmi, sunnudaginn 8. des. kl. 19:15.
ÁFRAM SELFOSS!!
Not at our best against the top team