Óli Gunnar Gestsson, leikmaður Selfoss, var á dögunum valinn í U20 landsliðið í körfubolta. Óli er þar með fjórði landsliðsmaður okkar Selfyssinga nú í sumar.

U20 landsliðið leikur á Evrópumóti sem fram fer 15.-24. júlí næstkomandi í Tbilisi í Georgíu en þjálfarar liðsins eru þeir Baldur Þór Ragnarsson og Pétur Már Sigurðsson. Ísland leikur í riðli með Rúmeníu, Hollandi, Lúxemborg og Eistlandi.

Í hópnum hittir Óli Gunnar fyrir Valsarann Svein Búa Birgisson, sem er fyrrum leikmaður Selfoss, og félagið er auðvitað ákaflega stolt af þessum frábæru drengjum og félögum. Þess má geta að Óli Gunnar heldur til Bandaríkjanna í haust, þar sem hann hefur fengið skólastyrk og mun reyna sig í háskólaboltanum þar vestra.

Hinir þrír landsliðsmennirnir eru í U16 ára liðinu sem er nú statt í Finnlandi á Norðurlandamóti, eins og getið er um í annarri frétt hér á síðunni.

Frétt á kki.is