Selfossliðið lauk tímabilinu í 1. deild karla með sóma í gærkvöldi þegar það mætti Ármanni á heimavelli sínum í Gjánni. Fyrir síðustu umferðina voru liðin jöfn með 11 sigra og líka jafna stöðu innbyrðis, hvort með sigurleik á heimavelli gegn hinu, svo hér var um hreinan úrslitaleik um 6. sætið (eins og það skipti einhverju meginmáli) að ræða. Úrsltin 100 – 82, góður og jákvæður heimasigur í mörgu tilliti.

Það var ungmennaflokkslið Selfoss sem sá um þennan leik, en enginn atvinnumaður er lengur í liðinu. Kjarnann mynda 4 strákar fæddir 2002 og 2003, ásamt „gamla manninum“ Sigmari Jóhanni, fæddum „seint á síðustu öld“, eða árið 1999. Hinir fimm eru 16 og 17 ára gamlir.

Ármann skoraði fyrstu körfuna, og það var í eina skiptið í leiknum sem glímufélagið leiddi, Selfoss jafnaði og tók síðan við stjórnvelinum. Mesta forysta Selfoss varð 20 stig um miðjan annan leikhluta en 15 stigum munaði í hálfleik. Ármenningar komu honum niður í 10 stig fyrir upphaf fjórða hluta og enn neðar þegar verst lét, en þegar 4 mín. voru eftir í stöðunni 88 – 78 tryggðu heimastrákar sigurinn með góðum kafla og breyttu stöðunni í 96-80.  Niðurstaðan 18 stiga sigur.

Eins og tölfræðiskýrslan sýnir var það hraði og ákefð sem skóp sigurinn, Selfoss skoraði tvöfalt á við Ármann úr hraðaupphlaupum, seinna áhlaupi og eftir tapaðan bolta andstæðinganna.

Ármann teflir fram íslenskum strákum, sumum með einhverja reynslu úr efstu deild, sem fæstir eru  lengur að hugsa sérstaklega um einhvern frama á ferlinum. Þetta eru hæfileikaríkir leikmenn sem kunna að spila körfubolta og hafa býsna gaman af því. Þeim til halds og trausts er bandarískur miðherji, William Thompson, sem var framlagshæstur í liðinu með 26 punkta, 16 stig og 16 fráköst, en einnig lægstu +/- töluna í liðinu, -17. Kristófer Gíslason setti 20 stig, þar af 4/9 í þristum, sem er hans vörumerki. Illugi Steingrímsson skoraði 14, Arnór Hermannsson 11 og Snjólfur Björnson 8, aðrir minna.

Frá Selfossliðinu er það helst að frétta að allir voru virkir, og þegar sá síðasti þeirra skoraði, Siggi Logi úr hraðaupphlaupi, fagnaði stúkan innilega. Annars var Arnaldur Grímsson öflugastur eins og oft áður, þó stundum líti út fyrir af látbragðinu að allt sé að fara til andskotans hjá honum. En hann er tilfinningavera og ákaflega skemmtilegur karakter á velli. Skoraði 27 stig og tók 14 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst, skilaði 31 framlagspunkti, nýtingin stundum verið betri en það er hans leikur og hlutverk að skjóta þegar færi gefst. Ísak kom þar fast á hæla, daðraði við þrefalda tvennu með 18 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar, 27 framlagspunkta. Birkir Hrafn var góður með 17 stig, 3/3 í þristum, 8 fráköst, 21 frl. og tók yfir sóknarleikinn á tímabili þar sem hann raðaði inn stigunum. Kennedy setti 17 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðseningar, nýtti 5/5 af styttra færi en aðeins 1/10 utan landamæra, 19 frl. og í heildina fín frammistaða. Ísar Freyr átti ekki góðan dag af þriggjastigafæri (1/12) en 9 stig, 5 frk. og 5 sts. gefa góða mynd af hans framlagi, og ekki síður +26 í +/- gildi, það langhæsta í liðinu. Styrmir gerði vel  með 6 stig, 2/3 í þristum og 10 í frl. Þeir sem eftir eru voru allir með 100% skotnýtingu, Gísli Steinn 3 stig, Ari Hrannar 3 stig, Siggi Logi 2 stig og Sigmar 2 stig.

Ármann var með betri stkotnýtingu en eins og fram kom vann Selfoss þennan leik á stolnum boltum og hröðum sóknum, stolnir 14/5, tapaðir 7/20 og stoðsendingar 31/18.

Tölfræðin

Lokastaðan í deildinni

ÁFRAM SELFOSS!!!