Það blés ekki byrlega í upphafi nýja ársins fyrir Selfossliðið í 1. deild karla. Fyrsti leikur var gegn Sindra á föstudaginn, og þó Hornfirðingar séu ofar í stöðutöflunni þá var sannarlega dauðafæri að leggja þá að velli á heimavelli, með sæmilega góðum leik. En eina flugeldasýningin var utandyra, þar sem þrettándaskotæði Selfyssinga glumdi með ljósglæringum og sprengingum yfir íþróttahúsinu á meðan leikmenn náðu ekki að kveikja í neinu púðri inni.
Sindri tók strax forystuna og leiddi allt til loka, mest með 31 stigi en lokatölur 59-88, og er langt síðan Selfossliðið skoraði jafn lítið í heilum leik. Með þessum skorti lækkaði meðalskor liðsins niður í 89 stig.
Hornfirðingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir að innbyrða sigurinn. Oscar Jorgensen var þeirra atkvæðamestur með 24 stig og 28 framlagspunkta, Gullermo Daza kom næstur með 13 stig, 7 fráköst og 17 í framlag, þá Ebrima Demba með 9 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar, Tyler Stewart var erfiður með sín 12 fráköst, Árni Birgir setti 12 stig, Tómas Orri 11 og tók 7 fráköst, Rimantas Daunys 11 stig og Sigurður Hallson 3 stig.
Kennedy og Gerald voru stigahæstir heimamanna, hvor með 14 stig, og Kenndy sá eini sem var með tveggjastafatölu í framlagi, heila 10 punkta. Ísar Freyr stkoraði 13 og fiskaði 10 villur, Arnaldur 6 stig, Ísak 4, öll úr vítum, Styrmir 4, og þeir Ari Hrannar og Birkir Hrfan skoruðu 2 stig hvor.
Það sést ekki oft slík skotnýting sem Selfossliðið bauð upp á, þó lagaðist hún heilmikið í seinni hálfleik, tosaðist þá upp í 32%, þriggjastiganýting liðsins var 15% og vítanýtingin 63%. Enginn leikur vinnst víst með slíkri skotsýningu. En þetta var ekki það eina sem fór illa. Sindri vann frákastabaráttuna 28-51 og framlagið var eftir því, 44-111.
Þess verður að geta að Ísak var ekki hálfur maður eftir ökklameiðsli á æfingu í vikunni, en það afsakar ekki and- og einbeitingarleysið í liðinu. Það fékk haug af opnum skotum en var fyrirmunað að hitta ofan í körfuhringinn.
Það voru fleiri lið illa fyrir kölluð á þrettándanum, en topplið Álftaness tapaði t.d. sínum leik ótrúlega stórt og sömu sögu má segja um Akureyringa sem riðu ekki feitum hesti frá Hveragerði.
Nú er ekkert annað að gera en að gleyma þessu og einbeita sér að næsta verkefni, sem er ferðalag norður til Akureyrar mánudaginn 16. janúar þar sem Þórsarar bíða.
ÁFRAM SELFOSS!!!