Aðalfundur Selfoss Körfu var haldinn í kvöld í Selinu v. Engjaveg á Selfossi. Dagskráin „venjuleg aðalfundarstörf“. Helstu málaefni voru ársreikningur og stjórnarkjör, en fyrir lá að töluverðar breytingar yrðu á stjórninni. Eyþór Frímannsson og Jóhanna Hallbjörnsdóttir, sem bæði hafa setið mörg ár í stjórn, Jóhanna ein sjö ár hvorki meira né minna, og Kristjana Gunnardóttir gengu úr stjórn. Er þeim þakkað fyrir sitt framlag til eflingar félagsins. Þá lá fyrir að formaður undanfarin átta ár myndi hætta störfum.

Guðmundur Ármann, Ragnhildur og Þórey buðu sig fram til áframhaldandi starfa og með þeim koma nýjar í stjórn þær Anna Valgerður Sigurðardóttir, Guðbjörg S. Kristjánsdóttir og Linda Rós Jóhannesdóttir.

Eitt framboð barst til formanns félagsins og það sæti mun skipa á komandi kjörtímabili Guðbjörg Bergsveinsdóttir.

Er þessum öllum óskað til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi.

Gjaldkeri útskýrði helstu atriði í skoðuðum ársreikningnum og breytingar frá fyrra ári. Helstu tíðindi úr reikningnum eru að tekjur jukust milli ára um tæpar fimm milljónir en gjöld um rúmar tvær. Hagnaður án fjármagnsliða var tæpar kr. 2,9 milljónir og niðurstöðutala rekstrarreiknings kr. 2.423.774. Skuldir og eigið fé eru ríflega kr. 2,6 milljónir. Sannarlega ánægjulegar tölur.

Félagið er því vel rekið, reksturinn skilar afgangi eins og undanfarin 8 ár, og styttist óðum í að bankaskuld verði greidd upp, og félagið verði skuldlaust um mitt þetta ár, 2023. Þá verður hægt að hraða enn uppbyggingu á öllum vígstöðvum, því treysta má því að ný stjórn mun ekki tapa sér á leikmannamarkaðnum, þrátt fyrir skuggalegar fréttir af ársþingi körfuboltasambandsins um nýliðna helgi.

Það er undirrituðum sérlegt ánægjuefni að skilja við félagið í þessari stöðu og geta gengið áhyggjulaus frá borði, með bros á vör.

Stjórn félagsins 2023-2024 skipa:

Formaður:

Guðbjörg Bergsveinsdóttir

Meðstjórnendur:

Guðmundur Ármann Böðvarsson

Ragnhildur Sveinbjarnardóttir

Þórey Helgadóttir

Anna Valgerður Sigurðardóttir

Guðbjörg S. Kristjánsdóttir

Linda Rós Jóhannesdóttir

Að lokum þakkar undirritaður öllum sem starfað hafa fyrir félagið og komið að uppbyggingu þess með einum eða öðrum hætti: Leikmönnum, þjálfurum, stjórnarmönnum, styrktaraðilum, foreldrum, sjálfboðaliðum, áhugafólki, félögum annarra liða, stjórn og starfsfólki körfuboltasambandsins, dómurum, starfsfólki íþróttahúss Vallaskóla og Iðu, Sveitarfélaginu Árborg og Fjölbrautaskólanum. Körfuboltafjölskyldunni allri. Takk fyrir samstarfið.

Gylfi Þorkelsson.