Aðalfundur Selfoss Körfu var haldinn sl. þriðjudag, 6. apríl. Vegna samkomutakmarkana fór fundurinn fram gegn um fjarfundabúnað og gekk það allt eins og í sögu, hefðbundin aðalfundarstörf, kosning stjórnar og ársreikningur í aðalhlutverki.
Smávægilegar breytingar urðu á stjórn. Þorbjörn Jónsson gekk nú úr stjórn, mest vegna álags í öðrum störfum, en í hans stað var kjörinn Guðmundur Ármann Böðvarsson. Stjórn er því svo skipuð næsta starfsár:
Formaður: Gylfi Þorkelsson. Meðstjórnendur: Eyþór Frímannsson, Guðmundur Ármann Böðvarsson, Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Ólafur Valdín Halldórsson og Trausti Jóhannsson.
Tobba eru þökkuð góð störf fyrir félagið undanfarin ár og Guðmundur Ármann boðinn hjartanlega velkominn.
Skoðaður ársreikningur var samþykktur samhljóða. Helstu tíðindi eru þau að enn heldur stjórn rekstri félagsins réttum megin við núllið og skuldastaðan sem glímt hefur verið við undanfarin ár smá batnar. Langtímalán sem tekið var til að endurskipuleggja reksturinn, og greitt hefur verið af samviskusamlega, er komið niður fyrir 2 milljónir.
Aðrar helstu tölur úr reikningnum eru þær að tekjur lækka frá fyrra ári um tæpar 2,5 milljónir. Á móti kemur að þrátt fyrir allt tókst að lækka rekstrarkostnað um tæpar 2,7 milljónir. Niðurstaðan er því skárri en undanfarin tvö ár, afgangur upp á tæpar 603.000 krónur, án fjármagnsliða, sem er „bæting“ um tæpar 280 þúsundir. Niðurstöðutalan af rekstrinum er 357.189,00, rétt borð fyrir báru.
Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt úr starfi liðins starfsárs og sömuleiðis helstu verkefni framundan. Auðvitað er óvissan vegna Covid19 alltumlykjandi og m.a. með öllu óvíst hvort tekst að ljúka mótum eða keppni verði slegin af annað árið í röð. Stefnt er að því að halda aftur 3á3 mót í Gjánni ef aðstæður leyfa í júní, fyrirhugað er unglingalandsmót á Selfossi um verslunarmannahelgina þar sem félagið sér um körfuboltakeppnina, rætt var um fjáröflunarverkefni og endurnýjun styrktarsamninga, málefni eldri flokka stúlkna hjá félaginu, þjálfaramál í yngriflokkastarfinu og viðraðar hugmyndir um ráðningu starfsmanns, en starfsemi félagsins er nú komið að þolmörkum á framlagi sjálfboðaliða einvörðungu, og ef það á að halda áfram að vaxa og dafna með sama hætti og undanfarin ár er það alveg nauðsynlegt skref.
Ný stjórn hlakkar til að takast á við komandi verkefni og biðlar til félagsmanna og samfélagsins um stuðning á komandi misserum, því margar hendur vinna létt verk og gott starf má alltaf bæta.