Það hefur því miður dregist óþarflega lengi að segja hér á síðunni fréttir af aðalfundi félagsins 2022 sem haldinn var 30. mars sl. í Selinu við Engjaveg á Selfossi.
Megintíðindin varða ársreikninginn. Eins og vitað var hækkuðu útgjöld mikið, og töluvert umfram áætlanir, úr rúmum 20 millj. í rúmar 30 millj. eða um tæp 49%. Það var að langmestu leyti Covid að kenna, allskonar, endalaus ófyrirséð útgjöld.
Segja má að opinber stuðningur hafi bjargað málunum, því þrátt fyrir auknar auglýsinga- og styrktartekjur, og niðurskurð á sumum liðum, hefðu þær aðgerðir einar og sér hvergi nærri dugað til að fylla í gatið eftir faraldurinn. En þetta samanlagt náði að hífa reksturinn upp úr bullandi tapi, og niðurstöðutalan, hagnaður af reglulegri starfsemi var kr. 237.353,-
Ekki þarf að fara mörgum orðum um léttinn að geta skilað jákvæðum ársreikningi við þessar aðstæður og ber að þakka ríkisvaldinu að grípa til aðgerða íþróttahreyfingunni til stuðnings. Sveitarfélagið Árborg samþykkti svo í febrúar sl. að veita félaginu „viðspyrnustyrk“ vegna fjárhagstjóns af völdum Covid, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, áhrif hans munu sjást í næsta ársreikningi, og koma sér vel við enduruppbyggingu allrar starfseminnar. Takk kærlega fyrir!
Nokkrar breytingar urðu á stjórn. Trausti Jóhannsson, Guðný Rúnarsdóttir og Ólafur Valdín Halldórsson ákváðu að hætta stjórnarsetu og er þeim hér með þakkað sitt góa framlag til félagsins undanfarin ár. Þrjár öflugar konur gáfu kost á sér í staðinn og eru konur nú í meirihluta í fyrsta skipti.
Í stjórn sitja nú: Gylfi Þorkelsson, formaður, Guðmundur Ármann Böðvarsson, gjaldkeri, Þórey Helgadóttir, ritari, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Kristjana Gunnardsóttir, Ragnhildur Sveinbjarnardóttir og Eyþór Frímannsson.
Í skýrslu stjórnar kom fram að ýmsir áætlaðir viðburðir féllu niður. Má þar nefna 3á3 mót, NLEC körfuboltabúðirnar sem mikil vinna hafði verið lögð í að undirbúa, og unglingalandsmót UMFÍ, en niðurfelling allra þessara viðburða kostaði umtalsvert tekjutap. Gleðilegri fréttir voru að 10 fulltrúar félagsins voru valdir í landsliðshópa yngri landsliða og 4 fengu skólastyrk til náms í Bandaríkjunum og tækifæri í NCAA háskólaboltanum.
Yngriflokkastarfið gekk vel og iðkendafjöldi sívaxandi. Ráðinn var starfsmaður í hlutastarf sem umsjónarmaður yngriflokka og veitti ekki af þeirri viðbót, því leikjaföldi er orðinn gríðarmikill.
Gróska er í starfsemi akademíu félagsins við FSu, vaxandi fjöldi nemenda og stefnir í sprengingu í haust, þegar hinn fjölmenni 2006 árgangur hjá félaginu hefur sitt framhaldsskólanám.
Af m.fl. karla var það helst að frétta að liðið lék í úrslitakeppni 1. deildar og vann Sindra í fyrstu umferð en tapaði naumlega fyrir Hamri í annarri umferð. Leikmaður Selfoss, Sveinn Búi Birgisson, var valinn besti ungi leikmaðurinn í 1. deild karla, af þjálfurum og fyrirliðum félaganna. Arnór Bjarki Eyþórsson var Körfuknattleiksmaður ársins og tilnefndur f.h. félagsins til kjörs Íþróttamanns Árborgar.
Að lokum sendir félagið kærar þakkir til allra styrktaraðila og velunnara, fyrir ómetanlegt framlag.
Gleðilegt sumar!