Selfossliðinu hefur bæst liðsauki á nýju ári, þegar keppni í 1. deild karla loks hefst eftir langa bið. Mættir eru aftur gamlir vopnabræður, þeir Ari Gylfason og Terrance Motley, sem léku saman tímabilið 2016-2017 og voru þá öflugustu leikmenn FSu-liðsins, eins og það hét þá, í 1. deild. FSu lék tímabilið á undan í úrvalsdeildinni.
Terrance var frábær þennan vetur, skoraði 31,3 stig, tók 13 fráköst og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali í 24 leikjum og skilaði 31,9 framlagsstigum. Terrance hélt eftir þennan vetur á Selfossi áfram í atvinnumennsku víða um heim en sneri aftur til Íslands á síðari hluta síðasta tímabils og lék 12 leiki fyrir Þór Akureyri í Domino’s deildinni þar sem hann skilaði 14 stigum og 7 fráköstum á 22 mínútum, áður en mótið var blásið af.
Ari var tímabilið sem þeir félagar léku síðast saman næst stigahæstur í liðinu með 14,1 stig að meðaltali, næst frákastahæstur með 5,3 og næstframlagshæstur í liðinu með 12,3 punkta. Eftir langan og farsælan feril tók Ari sér frí frá boltanum tímabilið 2019-2020 en tók skóna aftur fram núna um áramótin og verður liðinu mikill styrkur þegar fram líður með auknu leikformi. Tímabilið 2013-14 var Ari með 21,6 stig og 6 fráköst fyrir FSu og ári seinna með 20,5 stig og 5 fráköst. Hann er með 36% þriggjastiganýtingu á ferlinum, 44% tveggjastiganýtingu og 81,5% vítanýtingu.
Það er mikill fengur fyrir hið unga Selfosslið að fá að njóta krafta þessara reyndu leikmanna og verður gaman að fylgjast með þeim og liðinu þegar þeir hafa slípast til í leikmannahópnum. Terrance er án vafa einn albesti, ef ekki besti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur á Selfossi, og Ara þarf ekki að kynna frekar fyrir neinum sem fylgst hefur með körfuboltanum hér.
Verið hjartanlega velkomnir, Terrance og Ari!