Selfossliðið náði vopnum sínum heldur betur í kvöld með 28 stiga sigri á Sindra í Gjánni, í sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu. Nú voru allir með á nótunum og þá er ekki að sökum að spyrja, framlag úr öllum áttum, barátta og samheldni. Lokatölur 99-71, í leik sem virtist aldrei ætla að klárast.
Selfoss tók strax forystuna og hélt henni til leiksloka. Að loknum fyrsta leikhluta munaði 12 stigum og í hálfleik var staðan 51-30. Eftir þriðja stóð 76-50 og mestur varð munurinn 31 stig þegar fjórar mínútur voru eftir og þjálfararnir skiptu inn á þeim sem ekki höfðu komið við sögu. Það bar helst til tíðinda að þjálfari Sindra spilaði síðustu mínúturnar á 4 mönnum, sem er ekki algengt.
Það verður að segjast að það virtist ekkert alltof góð innbyrðis stemmning hjá gestaliðinu, sem kann ekki góðri lukku að stýra, þjálfarinn hávær og meira og minna inni á keppnisgólfinu, sem hann hefði ekki þurft að vera, því ekki yfirgnæfði áhorfendaskari skilaboðin til leikmanna.
Gerald Robinson var framlagshæstur Sindramanna, með 16 fráköst og 13 stig. Dallas Morgan fór í gang í síðasta leikhluta og raðaði nokkrum þristum með einkaframtaki, setti alls 21 stig og var stigahæstur. Gerald Baeza skoraði 16, Marko Jurica 11 og Aleix Tarradellas 8. Tómas Orri bætti við þeim 2 stigum sem uppá vantar.
Það var sannkallaður hátíðisdagur í dag hjá okkar mönnum, miðað við síðasta leik á Ísafirði. Lykilmenn léku við hvurn sinn fingur og með þessari frammistöðu hefði sigur unnist fyrir vestan, segi og skrifa.
Kristijan Vladovic var nú sjálfum sér líkur, dreif liðið áfram með góðum varnarleik og að langmestu leyti vel útfærðum sóknarleik. Hann var stigahæstur, framlagshæstur, stoðsendingahæstur og vann líka +/- keppnina; 22 stig, 7 stoðsendingar, 4 fráköst og 26 framlagsstig. Þannig að Beggi verður að framlengja við hann samninginn í íþróttahúsinu!!
Allir leikmenn Selfoss komu við sögu og 10 af 12 skoruðu körfu. Aljaz Vidmar náði tvöfaldri tvennu, með 13 stig og 10 fráköst, á aðeins 21 mínútu, 21 í framlag. Terrance sýndi vaxandi styrk og veit á gott fyrir liðið, 13 stig og 14 fráköst, og á enn mikið inni, +/- 25.
Arnór Bjarki funhitnaði í 2. leikhluta og setti þrjá þrista í röð, 13 stig, tók að auki 5 fráköst og fiskaði 6 villur. Ari var með 12 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar, endaði fyrri hálfleik á flottum flautuþristi, að gömlum vana. Sveinn Búi setti 9 stig og gaf 4 stoðsendingar, en lenti snemma í villuvandræðum, var fyrir vikið inn og út og náði þar af leiðandi ekki sínum allra besta takti. Svavar Ingi kom inn af miklum krafti, virtist ekki geta hætt að skora, og þurfti eiginlega „tæknilegt rothögg“ til að stöðva hann. Svavar skoraði 9 stig og tók 3 fráköst. Owen Scott skoraði 4 stig, Gunnar Steinþórsson 3 og Gregory 1. Sigmar skoraði ekki en skilaði sínu, ekki síst mikilvægu varnarhlutverki.
Það sem er ánægjulegast við liðið okkar er að algerlega er byggt á breidd og samheldni, allir þessir ungu strákar, sem flestir eru innan við tvítugt, hafa hlutverk og árangur liðsins byggir ekki á frammistöðu eins eða tveggja atvinnumanna; „kaninn“ á ekkert „að redda þessu“. Fyrir vikið munum við sjá töluverðar sveiflur í vetur, en það er liður í þróun ungra leikmanna að fá að gera mistök og læra af þeim. Sameinaðir stöndum vér – sundraðir föllum vér.
Næsti leikur er strax á mánudaginn, þann 25. janúar gegn Skallagrími í Borgarnesi kl. 19:15
Áfram Selfoss!!!