Selfoss heimsótti vini sína og vopnabræður á Akranesi í gærkvöldi í 1. deild karla og landaði að lokum öruggum sigri, 71-86, eftir jafnan fyrri hálfleik.

Skagamenn voru líklegri í upphafi leiks og leiddu mestan part fyrstu 20 mínúturnar, með litlum mun þó. Eftir 18 mínútur komst Selfossliðið yfir 32-31 og hélt forystunni eftir það til leiksloka. Mestur varð munurinn 23 stig, 58-81, þegar þrjár mínútur voru eftir en niðurstaðan 15 stiga sigur okkar manna. Það var skarpari varnarleik að þakka að Selfossliðið náði undirtökunum, það fékk í kjölfarið þónokkur auðveld stig úr hraðaupphlaupum, sem létti róðurinn töluvert.

Erlendu leikmennirnir voru atkvæðamestir Skagamanna, Clover með 22 stig, Christofis með 19 og Engelbrecht með 12 fráköst. Ungir heimastrákar létu líka til sín taka, fremstir þar Aron Elvar Dagsson með 7 stig og 9 fráköst og Þórður Freyr Jónsson 5 stig. Þá átti Davíð Alexander Magnússon góða spretti með 9 stig og 4 fráköst.

Góð dreifing var á framlagi í Selfossliðinu. Robinson atkvæðamestur með 30 stig og 10 fráköst, Gasper góður að vanda með 20 stig og 11 fráköst og þó Trevon hafi aðeins skorað 4 stig gaf hann fjölda stoðsendinga (7 skráðar) og tók 9 fráköst.

Ungu strákarnir fengu allir sín tækifæri, og allir 10 leikmennirnir „komust á blað“. Það var skarð fyrir skildi að Starri var meiddur á bekknum og Óli Gunnar þurfti að draga sig í hlé í fyrri hálfleik vegna meiðsla. En Ísar Freyr og Styrmir Jónasar skiluðu góðu dagsverki, ekki síst varnarlega, báðir efni í hörkugóða varnarmenn, tóku ruðninga sem gjarnan hefði mátt skrá sem „BN“ og Ísar stal að auki nokkrum boltum með því að skjótast inn í sendingar, sem endaði með hraðaupphlaupskörfum, og sýndi að auki kraft og snerpu í fráköstum. Arnar Geir, Vito og Sigmar Jóhann skiluðu allir sínu og vel það, og Birkir Hrafn, sem jarðaði nokkra þrista gegn Þór Þ. í bikarkeppninni fyrir 15 ára afmælið sitt í haust, setti sín fyrstu stig á Íslandsmóti í meistaraflokki með flottu skoti af driplinu frá endalínunni. Flott hraðabreyting og tignarlegt „pull up“ skot sem reyndari menn hefðu mátt vera stoltir af.

Eftir nokkur erfið ár sér nú glitta í þá framtíð sem félagið hefur unnið hörðum höndum að því að skapa með öflugu barna- og unglingastarfi. Það sér í roðann í austri við sjónhring, þó enn muni líða tími þar til sjáist til sólar, eða að hún skíni glatt hátt á himni. Við bíðum þolinmóð eftir þeim tíma og yljum okkur við vonarglæðurnar.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræðin

Staðan í deildinni