Stelpurnar í 10. flokki Selfoss/Hamars/Hrunamanna áttu prýðisgóða daga í vikunni. Eftir langa leikjaþurrð spiluðu þær nú tvo leiki í beit, gegn Val og ÍR, báða á útivelli.

Á fimmtudaginn héldu þær að Hlíðarenda og mættu Valsstúlkum. Sá leikur varð aldrei spennandi, okkar lið hafði góð tök á verkefninu og vann sannfærandi sigur,  29-46. Í haust mættust þessi lið á Selfossi og þá unnu okkar stúlkur líka örugglega, 59-37.

Í gær, laugardag, heimsóttu stelpurnar svo ÍR upp í Breiðholt. Það varð heldur jafnari leikur en gestirnir af Suðurlandi unnu þó örugan sigur, 44-59. Fyrri hálfleikurinn var frábær hjá stelpunum, sem skoruðu 9 þrista og leiddu með 21 stigi í hálfleik. ÍR beit frá sér í síðari hálfleik og minnkaði muninn en 15 stiga sigur má teljast afar góður árangur, ekki síst í því ljósi að fyrri leik liðanna lauk með 13 stiga sigri ÍR, 72-59.

Það er því greinilegt að framfarir eru miklar í liðinu, sem á eftir 4 leiki, tvo gegn Vestra og leiki gegn Grindavík (úti) og Haukum (heima).

ÁFRAM STELPUR!!!