Selfoss hafði ekki erindi sem erfiði í leik sínum gegn Sindra í gærkvöld austur á Höfn. Segja má að ótrúleg náttúran í blíðskaparveðrinu á ferðalaginu hafi ekki orðið Selfyssingum sá innblástur sem tilefni gaf til, því fegurð hennar hafði vinninginn með afgerandi hætti í samanburði við leik liðsins.
Sindri var yfir frá upphafi til loka og minnsti munurinn á liðunum var einmitt síðustu 5 sekúndurnar og til loka, þegar minnstu munaði að gestirnir stælu sigrinum með glæsilegri tilraun úr innkasti þegar 1 sekúnda var eftir á klukkunni. Sú tilraun hefði slagað upp í Jökulsárlón og Öræfajökul – hefði hún bara tekist! Sindri slapp sem sagt með skrekkinn og 77-76 sigur.
Munurinn á liðunum fór í 16 stig um miðjan annan leikhluta en Selfoss klóraði í bakkann, 32-26 og í hálfleik munaði 9 stigum. Það má kalla vel sloppið, því Selfossliðið lék hörmulega og vaknaði í raun ekki til lífsins fyrr en síðustu 5 mínúturnar, öfugt við þá óskrifuðu hefð að missa öll tök við þau tímamörk og tapa niður góðum sigurmöguleikum.
Í seinni hálfleik fór munurinn aftur í 16 stig á 25. mínútu en enn kröfluðu gestirnir sig inn í leikinn og staðan fyrir lokafjórðunginn 58-51. Hann hófst hinsvegar á 9-0 kafla Sindra, og brekkan orðin illkleif á hnjúkinn. „Þá var eins og blessuð skepnan skildi“, svo vitnað sé í þjóðskáldin, og Selfossdrengir „stigu af baki og fastar girtu“ fyrir lokasprettinn, náðu góðum 4-16 kafla og allt í járnum þegar 2 mín. voru eftir. Jafnt varð 73-73. Sindri skoraði og sókn Selfoss misfórst og brotið var á Gerald Robinson, sem setti bæði bónusvítin niður og allir viðstaddir töldu nú úrslitin ráðin, enda 5 sekúndur eftir og staðan 77-73.
Chris tók leikhlé og í kjölfarið fékk Selfoss innkastið á sóknarhluta. Flott flétta og þristur á sekúndubroti, 77-76. Sindri ætlaði að láta tímann fjara út eftir innkastið undir eigin körfu með því að henda boltanum fram völl en ekki tókst betur til en svo að hann fór upp í loft og Selfoss fékk innkast með 1 sekúndu á klukkunni. Boltinn sveif úr innkastinu yfir körfuhringinn og Kennedy Clement var þar kominn og minnstu munaði að hann træði honum ofna í körfuhringinn og tryggði Selfossi sigurinn, en hársbreidd vantaði á nákvæmni sendingar og tíma- og staðsetningu uppstökksins til að það heppnaðist – og þar við sat.
Gerald Robinson var langbestur Sindramanna með 29 stig og 9 fráköst. Gísli Hallsson og Dallas Morgan áttu góða spretti og það munaði um 8 fráköst og 9 stig Haris Genjac, sem er nýjasti erlendi leikmaðurinn þeirra Hornfirðinga.
Af okkar mönnum voru Terrance og Gunnar Steinþórsson þeir einu sem stóðu undir væntingum, Terrance með 20 stig, 12 fráköst, 7 fiskaðar villur, varið skot og á tölfræðiskýrsluna vantar a.m.k. 4 stolna bolta. Gunnar var áræðinn og setti 15 stig með fjölbreyttum hætti.
Kristijan kom í leitirnar rétt í lokin og endaði með 15 stig og Sveinn Búi fann netið með flottum þristum í áhlaupinu í síðasta leikhluta, skoraði 8 og halaði inn 7 fráköstum. Kennedy var sömuleiðis duglegur í fráköstum og skoraði 9 stig, Arnór 6 og Svavar 3.
Stóra málið er eitthvert einbeitingarleysi og andleg fjarvera. Af hverju ekki að spila alla leiki saman, eins og gekk svo vel gegn Vestra rétt um daginn? Er það allt gleymt og grafið? Liðið hefur marg sýnt að það hefur í fullu tré við öll lið í deildinni – ef það bara vill. En það er einmitt elementð sem ræður úrslitum – og þar stendur hnífurinn í kúnni.
Til að enda þetta á jákvæðum nótum ber að hrósa liðinu fyrir að hleypa spennu í að því er virtist gjörtapaðan leik. Það var vel gert. En dýrt spaug að byrja ekki fyrr á því.
Næsti leikur í 1. deildinni er heimaleikur gegn Skallagrími föstudaginn 12. mars kl. 19:15
Áður en kemur að því þurfa flestir leikmennirnir þó að reima á sig keppnisskóna gegn Breiðabliki í unglingaflokki mánudaginn 8. mars kl. 20:00 í Gjánni.
Við látum hvergi deigan síga og höldum ótrauð okkar braut.
ÁFRAM SELFOSS!