Þó nokkuð sé um liðið er rétt að fjalla nokkrum orðum um leik Selfoss gegn Skallagrími sem leikinn var sl. föstudag. Í sem skemmstu máli var Selfossliðið betri aðilinn lungann úr leiknum, náði tvisvar þokkalegu forskoti en rann í gamla hjólfarið í lokin og spólaði þar síðustu mínúturnar á meðan gestirnir sigu framúr og unnu 68-73. Það er komið nóg af þessu, ég verð að segja það, eins og að vakna upp af sömu martröðinni dag eftir dag.

Skallarnir voru fyrri til að skora en Selfoss jafnaði 5-5 og réði ferðinni fram yfir miðjan annan hluta þegar gestirnir komust aftur yfir, 30-29. Selfoss var einu stigi yfir í hálfleik, 38-37. Í þriðja hluta tók Selfoss aftur frumkvæðið og leiddi með um 10 stigum um hríð, en Skallagrímur sótti á og náði yfirhöndinni 52-53 á 29. mínútu. Selfoss leiddi fyrir síðasta hlutann 55-53 og komst fljótlega 6 stigum yfir, 60-54, en sem fyrr jöfnuðu gestirnir metin,60-60, og úr því var leikurinn í járnum, Selfoss þó skrefinu á undan. Þegar 2 mín. voru eftir var jafnt 68-68 en þá var komið að hinum að því er virðist óyfirstíganlega þröskuldi, Selfossliðið lagði niður vopnin og gaf leikinn frá sér.

Marques Oliver var langbestur hjá Skallagrími, og má segja að Selfoss hafi lítið ráðið við hann; 26 stig, 21 frákast og 37 framlagspunktar vitna um það. Hins vegar má segja að það hafi ekki þurft að ráða úrslitum, því aðeins einn annar í liði gestanna náði tveggja stafa tölu í stigum, Kristján Örn Ómarsson sem setti 13, þar af tvo mikilvæga þrista undir lokin. Oliver tók vel að merkja næstum því helminginn af öllum fráköstum Borgnesinga. Nebojsa skoraði 9 stig en aðrir minna.

Selfossvörnin stóð fyrir sínu og hélt Skallagrímsliðinu vel innan eðlilegra marka. Það var fremur sóknarleikurinn sem brást þegar mest lá við, eins og oft fyrr.

Þrátt fyrir Oliver vann Selfoss frákastabaráttuna 48-44, einnig stolna bolta (8-4) og varin skot (6-0). Þriggjastiganýtingin var aftur á móti slök og vítahittnin alveg ótrúlega léleg, aðeins 10/24 eða 42%, og ekki einu sinni Shaq seig svo lágt, hvað þá heilt lið!!!

Sveinn Búi var bestur Selfyssinga með 14 stig, 6 fráköst, 2 stolna og 2 varin skot, 20 framlagspunkta og +/-18 á 25 mínútum en var í villuvandræðum og sat því á óþarflega mikið á bekknum. Terrance skoraði 11 stig og tók 16 fráköst, Kristijan skoraði 16, tók 7 fráköst og gaf 9 stoðsendingar en tapaðir boltar og skotnýting draga niður framlagstöluna. Kennedy Clement setti 13 stig, tók 6 fráköst og varði 2 skot, Aljaz skoraði 7 og tók 6 fráköst, Gunnar setti 5 stig og Arnór Bjarki 2.

Tölfræði leiksins

Selfossliðið hefur nú tvær vikur til að safna vopnum sínum og brýna fyrir næstu rimmu gegn Álftanesi á heimavelli föstudaginn 26. mars kl. 19:15

ÁFRAM SELFOSS!!!!