Gunnar Steinþórsson og Sveinn Búi Birgisson eru nýir liðsmenn Selfoss-Körfu. Þeir eru báðir 18 ára, uppaldir KR-ingar og hafa skráð sig til náms við FSu til að ljúka framhaldsskólanámi ásamt því að stunda körfubolta af miklum móð í akademíunni, spila með unglingaflokki og reyna sig með Selfossi í 1. deild karla.

Þeir hafa báðir verið viðloðandi öll yngri landsliðin, U15, U16 og U18, unnið 2 Íslandsmeistaratitla og 1 bikarmeistaratitil. Sveinn Búi spilaði með U16 ára landsliðinu sem lenti í 2. sæti á eftir Eistlandi á Norðurlandamóti og stefnan er sett á gullið í U18 í ágúst næstkomandi.

Það er mikill fengur og viðurkenning fyrir starfið okkar á Selfossi að fá til sín unga leikmenn í þessum gæðaflokki sem stefna hátt. Allar aðstæður eru fyrir hendi til að bæta sig og félagið er spennt fyrir því að fá að taka þátt í þeirri vegferð með þeim, sem og þeim öðrum ungum og efnilegum leikmönnum sem hafa skrifað undir leikmanna- og akademíusamninga.

Hjartanlega velkomnir, Gunnar og Sveinn Búi.